Lífið

Retro Stefson með nýja stöð í OZ appinu

Meðlimir sveitarinnar í miklu stuði að taka upp efni.
Meðlimir sveitarinnar í miklu stuði að taka upp efni. Vísir
Á fimmtudag opnar ný þjónusta í OZ appinu, nokkurs konar smásjónvarpsstöð, sem horft er á í gegnum snjallsímann.

Meðlimir hljómsveitarinnar Retro Stefson eru meðal listamanna sem opna sína eigin stöð. Hún mun heita LFS sem stendur fyrir Les Fréres Stefson. „Þetta verða mest upptökur úr stúdíóinu, svona „studiodiaries“ ásamt myndböndunum okkar og fullt af gömlu efni. Svo er aldrei að vita nema það verði eitthvað læf ef það virkar,“ segir Unnsteinn Manuel Stefánsson, einn meðlima Retro Stefson.

Má því segja að smásjónvarpsstöðin sé aðdáendaklúbbur 21. aldarinnar, þar sem áskrifendur geta fylgst með hljómsveitinni á bak við tjöldin. Ásamt þeim munu tónlistamennirnir í GusGus, Samaris og Young Karin setja upp sína stöð. „Ég veit að GusGus verður með fullt af gömlu dóti á sinni stöð, þannig að það verður algjör nostalgía að horfa á það,“ segir Unnsteinn.

„Hermigervill verður með þáttinn Chords and Cables, þar sem hann fræðir áhorfendur um raftónlist,“ bætir hann við.

Meðlimir Retro Stefson og GusGus voru á leið til Los Angeles í gær, en á fimmtudag verður haldin kynning á Ace Hotel á þessari nýjung frá OZ og mun sveitin koma fram á kynningunni.

Um þessar mundir eru Retro Stefson á fullu að taka upp nýja plötu, sem hefur fengið nafnið Scandinavian Pain. Geta aðdáendur sveitarinnar því átt von á því að geta fylgst með hvernig gengur að taka upp plötuna í gegnum nýju stöðina í OZ appinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×