Innlent

Segja ákvörðunina vera andstæða lögum

Foreldrafélag Áslandsskóla telur að leysa þurfi húsnæðisvanda.
Foreldrafélag Áslandsskóla telur að leysa þurfi húsnæðisvanda.
Stjórn foreldrafélags Áslandsskóla boðaði til neyðarfundar í gær vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um að hætta við að byggja við skólann.

Foreldrafélag Áslandsskóla segir að með fyrrgreindri ákvörðun bæjarstjórnar felist að ekki verði af áður boðaðri nauðsynlegri stækkun húsnæðis Áslandsskóla, en þáverandi bæjarstjórn hafði löngu áður samþykkt fjárveitingu vegna stækkunarinnar.

Foreldrafélagið telur að efni ákvörðunarinnar vinni gegn lögbundnum menntunarskilyrðum nemenda í Áslandsskóla. Ríkar vísbendingar séu um að með fyrrnefndri ákvörðun bæjarstjórnar hafi skilyrði um lágmarksaðstöðu samkvæmt grunnskólalögum ekki verið uppfyllt.

Foreldrafélagið segir að auk þess feli umrædd ákvörðun bæjarstjórnarinnar í sér meiriháttar breytingar á húsnæðismálum og starfsemi skólans og því hafi verið lögbundin skylda fyrir bæjarstjórn að undirbúa ákvörðunina í samráði við skólaráð og aðra hagsmunaaðila skólafélagsins. Þar sem ákvörðunin var tekin einhliða og án nokkurs samráðs við ráðið né aðra þá fari málsmeðferð bæjarstjórnarinnar gegn grunnskólalögum og sé því ólögmæt.

Foreldrafélagið segir að verði ákvörðunin ekki afturkölluð muni það leita réttar síns hjá stjórnvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×