Innlent

Launin hærri en samningur sagði til um

Sveinn Arnarson skrifar
Auglýst verður eftir nýjum oddvita Skaftárhrepps í næstu viku. Að sögn oddvita sveitarstjórnar þurfti samvinna þeirra að enda.
Auglýst verður eftir nýjum oddvita Skaftárhrepps í næstu viku. Að sögn oddvita sveitarstjórnar þurfti samvinna þeirra að enda. Fréttablaðið/Vilhelm
Eygló Kristjánsdóttir, fráfarandi sveitarstjóri Skaftárhrepps, greiddi sér hærri laun en greint var frá í ráðningarsamningi við hana.

Eygló greiddi sér sömu upphæð og aðrir starfsmenn fá fyrir kaffitíma en sú upphæð var ekki tilgreind í ráðningarsamningi við hana.

Þetta var meðal þeirra atriða sem ollu því að trúnaðarbrestur varð milli hennar og meirihluta hreppsnefndar Skaftárhrepps. Að endingu var Eygló látin fara sem sveitarstjóri og mun hún hætta störfum í lok mánaðarins.

Eva Björk Harðardóttir
Eva Björk Harðardóttir, oddviti hreppsnefndar Skaftárhrepps, segir málið hafa farið í ákveðinn farveg upp á síðkastið.

„Við fórum, öll hreppsnefndin, inn í þetta kjörtímabil saman og ætluðum að vinna saman. Hins vegar er ekki meirihluti lengur í hreppsnefndinni og því ekki samstarfsgrundvöllur lengur. Við viljum þó ekki greina frá því nákvæmlega hvað veldur þessum trúnaðarbresti og ætlum okkur ekki að fara þá leið í málinu,“ segir hún.

Á síðasta ári kom upp nokkur óánægja meðal starfsmanna sveitarfélagsins með kaffiaðstöðu. Stéttarfélag starfsmanna krafðist þess að starfsmenn fengju greitt fyrir kaffitímann vegna aðstöðuleysis og á endanum var ákveðið að fara þá leið innan sveitarfélagsins. Sveitarstjóri greiddi sér einnig fyrir kaffitíma eins og aðrir starfsmenn, í óþökk meirihluta hreppsnefndar.

Eygló Kristjánsdóttir
Eva Björk vill ekki ræða þetta tiltekna mál en segir það vissulega hafa verið einn hluta af þeim trúnaðarbresti sem átti sér stað milli hreppsnefndarmeirihlutans og sveitarstjóra. „Það eru nokkur atriði sem við ætlum ekkert að telja upp, það er ákvörðun okkar sem stöndum að þessu. Það held ég að gagnist engum að fara þá leið og við værum engu bættari eftir svoleiðis málflutning,“ segir Eva Björk. „Það er bara ekki lengur meirihluti innan hreppsnefndar með hana og þar við situr.“

Samstarf þeirra Evu Bjarkar og Eyglóar hefur ekki verið gott síðustu mánuði og hafa samskipti þeirra ekki verið mikil.

„Tíminn líður og þetta er niðurstaðan. Ég sagði sveitarstjóra að ég væri þess fullviss að hún gæti unnið með öðrum aðilum þó að okkar samstarf hafi ekki gengið sem skyldi. Við vonum bara að allir gangi sáttir frá þessu. Ég mun allavega ekki fara að tína neitt á hana,“ segir Eva Björk.

Ekki náðist í Eygló Kristjánsdóttur, fráfarandi sveitarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×