Innlent

„Þetta var alveg hræðilegt flug“

Birgir Olgeirsson skrifar
Íslenskir farþegar sem áttu bókað beint flug frá Kanaríeyjum til Íslands þurftu að sætta sig við að fljúga fyrst til Finnlands.
Íslenskir farþegar sem áttu bókað beint flug frá Kanaríeyjum til Íslands þurftu að sætta sig við að fljúga fyrst til Finnlands. Vísir
Íslendingar sem áttu bókað beint flug með Primera Air frá Kanaríeyjum til Íslands í gær eru verulegar ósáttir eftir að þeir þurftu að sætta sig við að fljúga fyrst til Finnlands. Flugferðin fór þar með úr rúmum sex klukkustundum í tæpar tólf klukkustundir.

Þegar Íslendingarnir komu á Gran Canaria-flugvöllinn í borginni Las Palmas í gær var þeim tilkynnt að millilent yrði í Helsinki í Finnlandi því Primera Air ætlaði að skila um tuttugu manna hópi Finna þangað.

Voru íslensku farþegarnir að vonum verulega ósáttir við að heyra þetta samkvæmt heimildum Vísis enda áttu þeir bókað beint flug með Primera Air til Íslands. Voru margir þeirra á báðum áttum með að fara í flugið, þá sérstaklega eldri borgara sem treystu sér varla í svo langt flug.

Flug frá Las Palmas til Helsinki er ívið lengra en frá Las Palmas til Keflavíkur, skeikar þar um fimmtán mínútum við bestu aðstæður, og því ljóst að þetta var töluverð röskun á þeim áætlunum sem Íslendingarnir höfðu gert ráð fyrir. 

Við lendinguna í Helsinki var þeim síðan tilkynnt að einhver töf yrði þar til flugvélin gæti farið aftur í loftið því bilun hefði orðið í loftræstikerfinu. Fengu þeir ekki að fara frá borði á meðan þessu stóð. „Þetta var alveg hræðilegt flug,“ sagði einn farþeganna sem vildi ekki láta nafns síns getið. 

Vélin fór frá Las Palmas klukkan 16:40 í gær og var áætlað að hún myndi lenda á Keflavíkurflugvelli klukkan 21:20 í gærkvöldi. Raunin varð önnur og lenti hún ekki fyrr en Hún klukkan 04:21 í Keflavík í nótt.

Hafa margir farþeganna íhugað að sækja um bætur hjá flugfélaginu vegna þessarar seinkunar.

Ekki náðist í forsvarsmenn Primera Air við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir

Farþegaþota hringsólaði yfir Akureyri en lenti loks í Keflavík

Farþegaþota á vegum Primera, sem var að koma frá Tenerife og ætlaði að lenda á Akureyri í gærkvöldi, hætti við lendingu eftir að hafa sveimað yfir vellinum í mikilli ókyrrð í um það bil 40 mínútur, að sögn eins farþegans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×