Innlent

Færð mun spillast mjög hratt sunnanlands

Birgir Olgeirsson skrifar
Hvassviðri og kóf eru lýsandi orð fyrir morgundaginn.
Hvassviðri og kóf eru lýsandi orð fyrir morgundaginn. Foto: Vísir/Stefán
Hún kom í hérað síðastliðinn sunnudag og gefur Þorranum ekkert eftir. Um er að ræða Góuna, fimmta og næstsíðasti mánuð vetrar, sem lét strax finna fyrir sér á fyrsta degi með ofsaveðri. En það var einungis forrétturinn miðað við veðurspá morgundagsins.

Gera má ráð fyrir að færð muni spillast mjög hratt sunnanlands strax um morguninn. „Það verður mikið kóf því það er mjög mikið af lausum snjó og kalt. Þannig að færðin spillist eflaust mjög hratt strax í fyrramálið. Það verða örugglega samgöngutruflanir sunnanlands,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi um spá morgundagsins.

Sídegis á hann einnig von á afar slæmu veðri fyrir norðan og austan. „Hvassviðri og kóf og slæmar samgöngur,“ segir Þorsteinn.

Búist er við hlýnandi veðri annað kvöld sunnanlands og því mun fylgja rigning og þar með slabb á vegum. „Annars er austan áttin aldrei neitt voðalega slæm í Reykjavík en allt Suðurlandið er undir. Það er náttúrlega Hellisheiðin og Suðurlandsundirlendið allt, Eyjafjöll, Mýrdalur og Skaftafellssýslan. Þetta fer smám saman yfir í rigningu upp úr hádegi hérna syðst. Á öðrum stöðum á landinu verður þetta mest skafrenningur og hríðarkóf,“ segir Þorsteinn.

Hann á von á að það taki að lægja sunnanlands annað kvöld, á milli sjö og níu, en áfram stormur og rok fyrir norðan og austan allt kvöldið og fram undir morgun.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út stormviðvörun fyrir morgundaginn og gerir ráð fyrir suðaustan- og austanátt, 20 - 28 metrum á sekúndu, Sunnan- og Vestanlands á morgun með snjókomu eða slyddu, en síðar rigningu syðst. Hægari og úrkomulítið á Norður- og Austurlandi, en hvessir einnig þar síðdegis með ofankomu. Vægt frost á morgun, en hiti um eða yfir frostmarki sunnantil seinnipartinn.

Fylgstu með á veðurvef Vísis hér.


Tengdar fréttir

Stormur á öllu landinu á morgun

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörun en búist er við stormi eða roki á landinu á morgun. Meðalvindur á landinu gæti farið upp í 28 metra á sekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×