Fótbolti

Mark Kjartans Henry dugði ekki til gegn Vendsyssel

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kjartan í leik með uppeldisfélagi sínu, KR, á sínum tíma.
Kjartan í leik með uppeldisfélagi sínu, KR, á sínum tíma. Vísir/Daníel
Kjartan Henry Finnbogason og félagar í Horsens nældu aðeins í eitt stig gegn Vendsyssel í dönsku 1. deildinni í kvöld þrátt fyrir að vera manni fleiri allt frá 25. mínútu.

Kjartan Henry kom Horsens yfir með marki á 17. mínútu og staðan varð enn betri fyrir Horsens þegar Patrick Nielsen, varnarmaður Vendyssel, fékk beint rautt spjald á 25. mínútu.

Heimamönnum í Vendyssel tókst þó að stela stigi með jöfnunarmarki á 90. mínútu en þar var að verki Jens-Kristian Sørensen.

Kjartan Henry hefur verið í fantaformi undanfarnar vikur en hann er með 5 mörk í síðustu 7 leikjum í dönsku 1. deildinni.

Horsens gat skotist upp fyrir Vendyssel í töflunni með sigri í kvöld en situr áfram í 4. sæti dönsku 1. deildarinnar með 17 stig eftir 10 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×