Innlent

Býður upp á nýjan alþjóðavöll 20 km frá miðborg Reykjavíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvöllur í Hvassahrauni er sá sem helst kemur til greina í stað Reykjavíkurflugvallar. Þetta er meginniðurstaða Rögnunefndar en Hvassahraunsvöllur hefði möguleika á að þróast upp í að verða millilandaflugvöllur, aðeins tuttugu kílómetrum frá miðborg Reykjavíkur.

Er eitthvert annað flugvallarstæði en Vatnsmýri sem kemur til greina sem innanlandsflugvöllur? Í fyrsta sæti varð Hvassahraun. Flugvöllur þar er þó hugsaður til að geta orðið meira en bara innanlandsvöllur.

Ragna Árnadóttir, formaður nefndar sem kannaði önnur flugvallarstæði en Vatnsmýri.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Það sem við horfðum til, af því að við fengum það verkefni að athuga hvort það væri einhver flugvallarkostur sem væri með þróunarmöguleika, það er að segja með lengri flugbrautir og stærra athafnasvæði, þá komumst við að þeirri niðurstöðu að þá er Hvassahraun fýsilegasti kosturinn,“ segir Ragna Árnadóttir, formaður nefndar um möguleg flugvallarstæði. 

Fimm kostir voru skoðaðir, sem flestir kosta á bilinu 20 til 25 milljarða króna. Bessastaðanes er náttúruverndarsvæði og hefði takmarkaða þróunarmöguleika. Á Hólmsheiði eru ókyrrð og hvassviðri og Esjan hamlar aðflugi, flugvöllur á Lönguskerjum yrði mjög dýr og þýddi mikið umhverfisrask, Vatnsmýrarvöllur í breyttri mynd var skoðaður í nokkrum útfærslum, sem allar kosta álíka og nýr flugvöllur, Hvassahraunsvöllur myndi þýða rask á hrauni en athygli vekur að veðurfar þar fær jákvæða umsögn, vindhraði svipaður og í Vatnsmýri og tíðni mikillar ókyrrðar er ekki talin vandamál. 

Þá nefndi Ragna á blaðamannafundi um skýrsluna í dag að leggja þyrfti á annað hundrað milljarða króna í endurbætur á Keflavíkurflugvelli. Það vekur þá spurningu hvort nær væri að setja peningana í nýjan alþjóðaflugvöll. 

En má túlka niðurstöðuna svo að aðrir kostir en Hvassahraun séu nú úr myndinni? 

„Þetta er allavega fyrsti kostur,“ svarar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og nefndarmaður. „Og mér finnst geysilega mikilvægt að það er samstaða um hann og gögnin liggja núna öll fyrir á samanburðarhæfan hátt. Ég held að það segi sitt að það er samstaða um það að Hvassahraunið er fyrsti kostur,“ segir borgarstjóri.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Rögnunefndin slær ekki á deilurnar um Reykjavíkurflugvöll, sendir fremur þau skilaboð: Gerið vopnahlé meðan Hvassahraunskosturinn er skoðaður til hlýtar. 

„Vatnsmýrin í núverandi mynd var ekki meðal verkefna nefndarinnar. En það segir sig sjálft að það er ekki hægt að fjalla um þessi flugvallarmál áfram án þess að það verði einhverskonar sátt um rekstraröryggi Vatnsmýrarinnar á meðan. Það er ekki hægt að vinna áfram að þessum málum meðan allt logar í illdeilum. Þetta er lykilatriði,“ segir Ragna. 

Borgarstjóri sér fram á viðræður í sumar við ráðherra flugmála og fleiri og kveðst tilbúinn að setjast niður með ráðuneytinu og hagsmunaaðilum og búa til einhverskonar tíma- og framkvæmdaáætlun, ef sátt er um þessar tillögur. 

„Ég held að við séum kannski að opna á ákveðið tækifæri sem við höfum ekki séð áður, að ráða þessum málum til lykta í sameiningu þannig að sátt geti skapast til langrar framtíðar,“ segir Dagur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×