Innlent

„Óráð væri að leggja flugvöll þarna suður frá“

Birgir Olgeirsson skrifar
Ómar segir fullreynt með hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni
Ómar segir fullreynt með hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni
Ómar Ragnarsson segir menn hafa komist að þeirri niðurstöðu fyrir 55 árum að óráð væri að leggja flugvöll í Kapelluhrauni skammt frá Hvassahrauni. Þetta segir Ómar á bloggsíðu sinni en hann segir menn hafa prófað fyrir 55 árum að fljúga flugvélum til skiptis að og frá Reykjavíkurflugvelli í hvassri aust-suðaustanátt, algengustu rok-vindáttinni, og jafnframt að og frá hugsanlegu flugvallarstæði nálægt Hvassahrauni.

„Í ljós kom, að vegna þess að Hvassahrauns/Kapelluhraunsflugvöllur yrði helmingi nær fjöllunum fyrir austan Reykjavík heldur en völlur í Vatnsmýrinni myndi ókyrrð verða svo miklu meiri þar en í Reykjavík, að óráð væri að leggja flugvöll þarna suður frá,“ skrifar Ómar á bloggi sínu.

Hann segir því slegið fram af Rögnunefndinni að vindur og veðurfar sé í grunninn svipaður á báðum stöðum en segir ekki tekið með í reikninginn að landfræðilegar aðstæður eins og nálægð fjalla, sem vindurinn fer yfir, geta valdið því að miklu verri ókyrrð verði á þeim stað sem nær er fjöllum en þeim stað sem fjær er.

„Vindmælingar niðri við jörð segja ekki alla söguna, því að hættulegasta ókyrrðin er eðli málsins samkvæmt ofar, í aðfluginu og ekki hvað síst í fráfluginu þegar flogið er í átt að Reykjanesfjallgarðinum.“

Hann segir einu raunhæfu leiðina til að rannsaka þetta sé að gera það sama og var gert fyrir rúmlega hálfri öld, að gera aðflug og fráflug að báðum vallarstæðunum í algengustu hvassviðrisáttinni á sama tíma.

„Meðan það hefur ekki verið gert, er aðeins verið að stefna að óþörfum mistökum vegna ónógra upplýsinga og Vaðlaheiðargöngin virðast vera gott dæmi um.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×