Innlent

Kostnaður við skimun á ristilkrabbameni 136 milljónir á ári

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bleika slaufan safnaði fyrir hópleit í síðustu söfnun.
Bleika slaufan safnaði fyrir hópleit í síðustu söfnun. vísir/andri marinó
Hópskimun á ristilkrabbameini er sögð skila árangri, hún auki líkur á snemmgreiningu sjúkdómsins og þar með hækki hlutfall þeirra sem greinast á læknanlegu stigi. Í fyrstu er skimun sögð kostnaðarsöm en skila sparnaði þegar tilfellum sjúkdómsins fari að fækka.

Þetta kemur fram í skýrslum Krabbameinsfélags Íslands sem sendar voru til heilbrigðisráðherra. Ráðherra óskaði eftir skýrslunum eftir áskorun Krabbameinsfélagsins um að hefja skipulega leit að ristilkrabbameini.

Í faglegu mati kemur fram að kostnaður við skimun sé að fullu réttlætanlegur miðað við ávinning í sparnaði annars staðar, aukna lifun og bætt lífsgæði.

Niðurstöður kostnaðargreiningar benda til að kostnaður við hópleit sé 136 milljónir króna á ári. Þar af eru áætlaðar 23 milljónir í kostnað vegna aukinnar meðferðar þar sem vænta má fjölgunar á greiningu krabbameins á fyrri stigum. Af þessari upphæð falla 124 milljónir á ríkið en afgangurinn á sjúklinga og vinnuveitendur.

Árið 2007 var áætlað að hefja skipulagða leit að krabbameini í ristli og endaþarmi. Formleg leit komst hins vegar ekki í framkvæmd vegna skorts á fjármagni í kjölfar bankahrunsins. Nú er krabbameinsleitin aftur komið á borð heilbrigðisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×