Erlent

Grunur um Ebólusmit í Danmörku

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hátt í átta þúsund hafa orðið faraldrinum að bráð og yfir tuttugu þúsund eru sýktir.
Hátt í átta þúsund hafa orðið faraldrinum að bráð og yfir tuttugu þúsund eru sýktir. Vísir/AFP
Grunur leikur á að dönsk hjúkrunarkona sem hafði verið við störf í Sierra Leone í Vestur-Afríku sé smitað af ebólu. Hjúkrunarfræðingurinn er kominn til Árhúsa í Danmörku en ekki hefur fengist staðfest hvort um ebólusmit sé að ræða.

Konan mun hafa verið að meðhöndla ebólusýktan einstakling þegar hún kom auga á gat á öðrum hanska sínum. Hún gerði heilbrigðisyfirvöldum því vart við og fór hún með flugi á háskólasjúkrahúsið í Árhúsum. Þar var hún færð í einangrun en enn sem komið er liggur ekki fyrir hvort um ebólusmit sé að ræða.

Danskir fjölmiðlar greina frá því að í gær hafi ákvörðun verið tekin um að senda konuna heim til sín þar sem hún verður í áframhaldandi sóttkví, en undir ströngu eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. Þar verður hún líklega næstu daga, eða þar til í ljós kemur hvort um smit sé verið að ræða eða ekki. Ekki hefur orðið vart við einkenni en alla jafna eru það í fyrstu hefðbundin flensueinkenni.

Ebóla getur verið bráðsmitandi komist fólk í tæri við líkamsvessa af einhverju tagi og deyja flestir sem af henni smitast, eða hátt í sjötíu prósent.  Hátt í átta þúsund hafa orðið faraldrinum að bráð og yfir tuttugu þúsund eru sýktir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×