Innlent

Lá meðvitundarlaus eftir líkamsárás á Laugavegi

Birgir Olgeirsson skrifar
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Anton
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast síðastliðinn hálfa sólarhringinn. Um kvöldmatarleytið barst tilkynning um umferðarslys á Miklubraut við Lönguhlíð þar sem ekið hafði verið á gangandi vegfaranda. Var hann fluttur á slysadeild í sjúkrabifreið og fann fyrir eymslum í vinstri olnboga, hægri úlnlið og fingrum eftir að hafa fallið í götuna.

Á þriðja tímanum í nótt var ungur maður handtekinn á Miklubraut við Hlíðarhverfi þar sem hann var að ganga fyrir bifreiðar. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangageymslu lögreglunnar meðan ástand hans lagast.

Skömmu síðar barst tilkynning um eld í vélsmiðju við Reykjavíkurveg en eldurinn reyndist vera í stól sem stóð við húsið og var vegfarandi búinn að draga stólinn frá húsinu. Var slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kallað til sem tryggði vettvanginn.

Þegar klukkuna vantaði 9 mínútur í þrjú í nótt var maður í mjög annarlegu ástandi handtekinn eftir átök við dyraverði við veitingahús í miðborginni. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans lagast.

Á fjórða tímanum var kona handtekin við veitingahús í Kópavogi grunuð um líkamsárás. Konan var ölvuð og vistuð í fangageymslu meðan ástand hennar lagast.

Á fimmta tímanum var tilkynnt um líkamsárás við Laugaveg. Þar hafði maður verið sleginn í andlitið og var hann meðvitundarlaus og blæðing úr höfði er lögreglumenn komu að. Lögreglan segir árásaraðila hafa hlaupið af vettvangi en sá slasaði var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum slasaðist maðurinn ekki alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×