Innlent

Kofi Tómasar frænda harmar „múgæsing“ vegna auglýsingar eftir tónlistarfólki

Bjarki Ármannsson skrifar
Auglýsing frá skemmtistaðnum Kofa Tómasar frænda á horni Laugavegar og Skólavörðustígs eftir tónlistarfólki sem gæti hugsað sér að troða upp að kvöldi nýársdags hefur vakið mikla athygli.
Auglýsing frá skemmtistaðnum Kofa Tómasar frænda á horni Laugavegar og Skólavörðustígs eftir tónlistarfólki sem gæti hugsað sér að troða upp að kvöldi nýársdags hefur vakið mikla athygli. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU KOFANS.
Skemmtistaðurinn Kofi Tómasar frænda í miðbæ Reykjavíkur hefur sent frá sér tilkynningu vegna auglýsingar sem vakið hefur mikla athygli á samfélagsmiðlum í dag. Þar óskaði staðurinn eftir tónlistarfólki til að koma fram á nýársfagnaði á staðnum en það sem vakti reiði margra er sú staðreynd að ekki átti að greiða tónlistarfólki fyrir að koma fram. Heldur var fimmtíu prósenta afsláttur á fjögurra rétta matseðli á Sakebernum í boði.

Í tilkynningunni eru viðbrögð við auglýsingunni kölluð múgæsingur. Hugmynd skemmtistaðarins hafi verið að leyfa nýliðum í tónlistargeiranum, sem spili ekki oft á skemmtistöðum, að koma og spreyta sig. Ætlunin hafi ekki verið að „neyða“ fólk að spila fyrir helmingsafslátt af mat og leiðinlegt sé að fólk hafi brugðist við auglýsingunni með því að „úthúða“ staðnum fyrir að níðast á tónlistarfólki.

Tónlistarfólk virðist á samfélagsmiðlum upp til hópa nokkuð ósátt við útspil Kofans og langþreytt á því sem það segir tilraunir til þess að fá fólk til að gefa vinnu sína. Það þekkist varla í öðrum geirum. Í tilkynningunni segir að Kofi Tómasar frænda hafi ávallt borgað sínu tónlistarfólki umsamin laun á umsömdum tíma. Eðlilegt þyki að folk reyni að semja um laun sín í þessu en fari ekki í þann leik að úthúða stöðum fyrir boð sín.

Yfirlýsing Kofa Tómasar frænda er birt hér að neðan í heild sinni:

Elsku fallega fólk - Við sjáum okkur knúin til að svara múgæsingnum sem hefur átt sér stað í sambandi við Nýársfögnuðinn okkar. Með miðagjaldinu sem er 5000.- fylgir 5 í fötu af Kopperberg sem kostar 6450.- Okkar hugmynd var að leyfa nýliðum í tónlistargeiranum sem að jafnaði eru ekki að spila á skemmtistöðum að koma og spreyta sig og njóta kvöldsins með okkur.

Okkar upprunalega hugmynd var að bjóða þeim 50% afslátt af 4 rétta matseðli með víni en mér sýnist fólk taka því þannig að við séum að reyna að neyða fólk til að spila fyrir þessa upphæð, eðlilegt þykir að fólk reyni að semja um sín laun í þessu eins og öðru en fari ekki í þann leik að úthúða stöðum fyrir boð sín. Kofi Tómasar frænda hefur alltaf borgað sínu tónlistarfólki umsamin laun á umsömdum tíma og staðið við allar sínar skyldur.

Einhverjir eru að rugla saman Nýársfögnuðinum á Kofanum og Áramótafögnuðinum en þetta eru tveir aðskildir viðburðir. Viðburðurinn á Miða.is er tengdur Áramótafögnuðinum. Leiðinlegt er að falleg hugmynd að bjóða fólki upp á dýrindis mat með vínpörun og ljúfum tónum hefur snúist upp í það að úthúða Kofa Tómasar frænda fyrir að níðast á tónlistarfólki en fyrirtækið hefur haldið gríðarlega mörg djasskvöld með frábærum viðtökum og enginn fengið greitt í matarafgöngum ennþá. Við munum áfram kappkosta við að veita gestum okkar góða stemmningu á sem bestu verði.

Kofi Tómasar frænda vill óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og friðar á nýju ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×