Innlent

Mikið fjölgað á árinu hjá Kvennaathvarfinu

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að það leiti ekki endilega fleiri til athvarfsins um áramót en jól.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að það leiti ekki endilega fleiri til athvarfsins um áramót en jól. vísir/valli
Mun fleiri hafa leitað til Kvennaathvarfsins á árinu sem er að líða en á síðasta ári. Í október höfðu fleiri komið í viðtöl til Kvennaathvarfsins en allt síðasta ár.

Þann tólfta janúar síðastliðinn skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgar­stjóri og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, undir samstarfssamning um átak gegn ofbeldi. Markmið samningsins var að bæta verklag lögreglunnar og annarra fagaðila í heimilisofbeldismálum.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að strax þá hafi mikil fjölgun orðið á þeim sem leituðu til athvarfsins vegna ofbeldis. „Það voru hundrað konur hjá okkur í dvöl í fyrra en þær verða að minnsta kosti 120 á þessu ári,“ segir Sigþrúður.

Að sögn Sigþrúðar skilar umræða í þjóðfélaginu sér jafnframt í fjölgun. Þá sé fagfólk duglegra að ráðleggja konum að leita til athvarfsins.

Um jólin voru níu manns, konur og börn, í kvennaathvarfinu. Sigþrúður segir að þá leiti konur til athvarfsins á milli jóla og nýárs, alveg eins og gengur og gerist aðrar vikur ársins. Hún segir þó ekki endilega líklegra að konur komi á nýársnótt en jólanótt, þrátt fyrir að margir kunni að draga þá ályktun vegna mikillar áfengisneyslu um áramót.

„Með nýju verklagi lögreglunnar á að fækka þeim tilvikum þar sem konur koma á náttkjólnum úr miðju ofbeldisatviki. Það er algengt að við lesum í fjölmiðlum um fimm útköll vegna heimilisofbeldis þá nóttina en ekkert þeirra kom til okkar. Þær sem eru beittar ofbeldi á nýársnótt skila sér svo kannski tuttugasta janúar.“

Fjárframlag til Kvennaathvarfsins hækkaði um ríflega fimm milljónir á nýjum fjárlögum og verður 70,6 milljónir króna á árinu. Þá hefur athvarfið samning við Reykjavíkurborg um fjárframlög. Framlögin duga fyrir daglegum rekstri, launakostnaði starfsmanna, hita og rafmagni auk matar fyrir dvalarkonur og börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×