Innlent

Mikilvæg þjónusta sett út fyrir sviga

Snærós Sindradóttir skrifar
Myndin er frá mótmælum NPA miðstöðvarinnar í Kringlunni þann fimmta maí síðastliðinn. Markmið hlekkjanna var að tákngera takmörkun ferðafrelsis og frelsis til búferlaflutninga.
Myndin er frá mótmælum NPA miðstöðvarinnar í Kringlunni þann fimmta maí síðastliðinn. Markmið hlekkjanna var að tákngera takmörkun ferðafrelsis og frelsis til búferlaflutninga. Fréttablaðið/Ernir
Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) við fatlað fólk er ekki hluti af nýju samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustu við fatlað fólk. Í samantekt á niðurstöðum verkefnisstjórnar um málaflokkinn segir að NPA teljist ekki til lögbundinnar þjónustu og að innleiðing þjónustunnar hafi „skapað umtalsverðan útgjaldaþrýsting.“

Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), segir að samningaviðræðurnar nú hafi aðeins snúist um þá yfirfærslu á verkefnum sem varð frá ríki til sveitarfélaga í janúar 2011. Þá hafi NPA aðeins verið á byrjunarstigi og lítið fjármagnað af hálfi ríkisins.

„Þegar við leituðum til kollega okkar í Noregi varðandi NPA var mælt með því að við gæfum okkur tíu ár í innleiðinguna því það væri svo margt sem bæri að athuga,“ segir Halldór. Hann segir að nú sjái ríkið um tuttugu prósent fjármögnunarinnar en það sé vilji sveitarfélaga að hlutfall ríkisins sé þrjátíu prósent.

Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks ber að klára innleiðingu NPA fyrir árslok 2016 og fjármögnun þess sömuleiðis. Þá eigi ráðherra að leggja fram frumvarp sem lögfesti NPA sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk.

Ellen Calmon
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segist bregða við að heyra að NPA sé ekki inní nýja samkomulaginu. „Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin og ráðuneytið komist að samkomulagi um að það verkefni fái að halda áfram og að það eflist. Það að það sé ekki alveg komið á hreint hvernig NPA málum verður háttað veldur gríðarlegum kvíða hjá því fatlaða fólki sem nýtir sér þessa þjónustu,“ segir Ellen.

Freyja Haraldsdóttir
Freyja Haraldsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar og notandi NPA er ekki ánægð með niðurstöðu ríkis og sveitarfélaga. Hún segir að svo virðist sem enginn hafi áttað sig á því að fjármagn þyrfti strax til að mæta kjarasamningshækkunum. „Mér finnst mjög sorglegt að þeir skuli stilla þessu upp eins og þetta sé út fyrir sviga. Það er ákveðin stefnuyfirlýsing fólgin í því að þetta sé ekki partur af almennri þjónustu.“

Freyja segir NPA hafa umbylt lífi sínu. Þjónustan hafi gert henni kleyft að vera virk í samfélaginu, vera á vinnumarkaði og sækja sér menntun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×