Fótbolti

Dreymt um landsliðið allt frá barnsæsku

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Arnór í leik með U21 árs landsliði Íslands.
Arnór í leik með U21 árs landsliði Íslands. Vísir/Getty
Arnór Ingvi hefur verið lykilleikmaður hjá Norrköping sem berst þessa dagana um sænska meistaratitilinn ári eftir að hafa verið í fallbaráttu. Hann dreymir um sæti í landsliðinu en segist bíða rólegur eftir kallinu.

„Lífið er töluvert betra, þetta er eins og svart og hvítt miðað við í fyrra. Það er allt annað að sjá alla í bænum, allt mannlífið lifnaði við og það er skemmtilegt að fylgjast með þessu,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, leikmaður IFK Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, aðspurður hvernig lífið væri í bænum þessa dagana.

Arnór og félagar unnu 4-2 sigur á Djurgården í vikunni en félagið hefur unnið fimm leiki í röð og deilir efsta sæti deildarinnar með AIK og Göteborg þegar fimm umferðir eru eftir.

Ótrúlegur viðsnúningur hefur verið á gengi liðsins sem lenti í 12. sæti í deildinni á síðasta tímabili og bjargaði sér í raun fyrir horn með því að næla í tíu stig í síðustu fjórum leikjunum.

„Við breyttum leikstíl okkar og fengum inn þá Nicklas Bärkroth og Daniel Sjölund og þeir hafa lyft þessu upp, sérstaklega Daniel sem hefur verið algjör lykilleikmaður. Síðan höfum við hinir, þar á meðal ég, stigið upp og tekið eitt skref fram á við. Við fengum góða reynslu á síðasta tímabili enda með ungt lið og við erum að nýta þá reynslu í ár, við vitum betur hvað þarf að gera í hverjum leik,“ sagði Arnór.

Arnór í leik með Keflavík á sínum tíma.Mynd/Guðmundur Bjarki
Hef lagt mjög hart að mér

Arnór hefur leikið í 24 leikjum af 25 í sænsku úrvalsdeildinni og hefur tekið töluverðum framförum í ár.

„Þjálfarinn hefur sett traust sitt á mig, hann setti mig í það hlutverk sem ég vildi inni á vellinum sem er svona nokkurn veginn frjáls staða. Það er sama staða og ég var að spila heima en á síðasta tímabili lék ég mun meira á hægri kantinum. Ég hef lagt mjög hart að mér og þegar þú spilar svona mikið spilarðu betur og bætir þig sem leikmaður.“

Arnóri líður vel í Svíþjóð en hann ræddi við umboðsmenn sína um að ræða ekkert við önnur lið fyrr en að tímabilinu loknu.

„Ég sagði við umboðsmennina mína um að segja mér ekkert fyrr en tímabilið væri búið, ég vildi ekki heyra neitt. Ef eitthvað kemur upp skoða ég það í nóvember en ég er ánægður hérna. Ef við náum Evrópusæti yrði frábært að vera hér á næsta tímabili. Þetta er góður gluggi, það fylgjast allir vel með og það væri draumur að fá að spila í Evrópukeppni,“ sagði Arnór en það fer vel um hann í Norrköping.

„Það fer mjög vel um mig, borgin er flott og aðstæðurnar eru til fyrirmyndar. Þetta er hvorki of stór klúbbur né of lítill klúbbur og í raun ekkert eins og Göteborg og AIK sem eru risafélög. Þetta er flottur klúbbur sem er með flotta sögu þannig að mér líður mjög vel hérna.“

Arnór í leik með NorrköpingMynd/Heimasíða Norrköping
Lars er hátt skrifaður hérna

Arnór og félagar í Norrköping eru að berjast við tvö önnur lið um titilinn, AIK og Göteborg, en sjö stig eru í ríkjandi meistara Malmö. Í öllum þessum liðum má finna íslenska leikmenn og gera má ráð fyrir að það verði íslenskur leikmaður sem hampi titlinum í vor.

Uppgangur íslenskrar knattspyrnu hefur verið í umræðunni í Svíþjóð enda sænskur þjálfari, Lars Lagerbäck ásamt Heimi Hallgrímssyni að stýra íslenska karlalandsliðinu á EM í fyrsta sinn.

„Það er gaman að því að við séum fjórir að berjast um þetta og þetta er gott fyrir íslenskan fótbolta. Fólk hérna úti fattar eiginlega ekki að svona lítil þjóð geti afrekað eitthvað á borð við það sem íslenska landsliðið er að gera en þeir segja að þetta sé Lars að þakka,“ sagði Arnór sem segir Svíana sjá á eftir Lars.

„Hann er hátt skrifaður hér og þeir sem tala við mig um þetta skilja ekki enn þann dag í dag af hverju hann var rekinn. Það var sagt að hann spilaði leiðinlegan fótbolta sem er bara heimska, hann hefur sýnt það.“

Arnór, hér í neðri röð lengst til hægri, var fastagestur í U21 árs liðinu í síðustu undakeppni en hann bíður eftir eldskírn sinni með A-landsliðinu.Vísir/Getty
Dreymt um það frá barnæsku

Arnór stefnir líkt og flestir íslensku atvinnumennirnir þessa dagana á að komast í landsliðshópinn hjá Lars og Heimi en Arnór hefur leikið með öllum unglingalandsliðum Íslands. Hann hefur ekki enn fengið tækifæri hjá Lars og Heimi og hann segist ekki vera að stressa sig á því.

„Mann hefur dreymt um að leika fyrir landsliðið allt frá barnæsku og það er markmið mitt en ég bíð bara sallarólegur eftir mínu tækifæri. Ég hef ekkert heyrt persónulega frá þeim, ég leyfi þeim bara að vinna sína vinnu, þeir eru að vinna sína vinnu glimrandi vel,“ sagði Arnór og bætti við:

„Þeir eiga það skilið en auðvitað langar mann að komast inn sem fyrst. Ég er sem betur fer enn ungur en vonandi fæ ég einhver tækifæri á næstunni og get sýnt þeim hvað ég hef fram að færa. Bara að komast í hópinn myndi gera margt fyrir mig upp á framhaldið að gera,“ sagði Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×