Innlent

Sýknaður af kynferðisbroti gegn stjúpdóttur sinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. vísir/stefán
Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað karlmann af ákæru af kynferðisbroti gegn þáverandi stjúpdóttur sinni. Samkvæmt ákæru átti maðurinn að hafa brotið gegn stúlkunni með því að hafa í eitt skipti á árinu 2005 til 2006, er hún var 8 til 9 ára gömul, í rúmi í svefnherbergi mannsins og móður brotaþola. Var maðurinn sakaður um að hafa strokið kynfæri stúlkunnar og rass innan klæða þegar hún lá á milli móður sinnar og mannsins.

Móðir stúlkunnar lagði fram kæru á hendur manninum fyrir kynferðisbrot hans gegn stúlkunni á lögreglustöðinni á Suðurnesjum þann 13. Júní árið 2013. Tekin var skýrsla af móðurinni hjá lögreglu sama dag þar sem kom fram að hún og maðurinn hafi verið sambýlisfólk en hún hafi ákveðið vegna fíkniefnanotkunar mannsins að slíta samvistum við hann og hafi það verið deginum áður. Í framhaldi af því hafi stúlkan brotnað niður og farið að gráta og tjáð móður sinni hvernig maðurinn hafi brotið gegn henni kynferðislega.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og sagði þessar ásakanir ósannindi. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að stúlkan hafi gefið greinargóða skýrslu fyrir dómi og hafi verið trúverðug. Dómurinn taldi hins vegar framburð mannsins einnig trúverðugan. Með vísan til þess var uppi nokkur vafi í málinu að mati dómsins sem sagðist meta þann vafa samkvæmt lögum ákærða í hag. Taldi dómurinn ákæruvaldið ekki hafa tekist að axla þá byrði að sanna sekt mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×