Enski boltinn

Eiður Smári á að vera leikmaður ársins: Værum í ruglinu án hans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Hverjum hefði dottið í hug að endurkoma Eiðs Guðjohnsen myndi ganga svona vel?“ segir Chris Manning, harður stuðningsmaður Bolton, um markahæsta landsliðsmann Íslands frá upphafi á Lion Of Vienna Suite, stuðningsmannasíðu Bolton.

Manning er mikill aðdáandi Eiðs og hefur áður beðið konu sína afsökunar á að elska íslenska landsliðsmanninn, en í nýjum pistli sínum segir hann Eið Smára vera leikmann ársins hjá Bolton.

Eiður Smári samdi seint við Bolton á síðasta ári og þreytti aðra frumraun sína með liðinu 13. desember í markalausu jafntefli gegn Ipswich.

Hann spilaði í heildina 21 leik, tólf í byrjunarliði og níu sem varamaður, og skoraði fimm mörk.

„Þegar hann kom inn á gegn Ipswich sýndi Eiður að hann hafði ekki tapað eldmóðnum og svo sannarlega ekki gæðunum sem gerðu hann að virtum leikmanni á alþjóðlega sviðinu,“ segir Manning.

„Hann skoraði fyrst á móti Leeds í janúar. Eiður kom með gæði inn í liðið, reynslu og vopnabúr sem enginn meðaljón gæti boðið upp á. Þegar okkur vantaði mark kom hann alltaf til bjargar.“

„Endurkoma hans var hreint mögnuð og það ætti ekki að koma neinum á óvart að hann ætli að halda áfram að spila fótbolta. Við skulum bara vona það verði hjá Bolton.“

„Ekki nóg með þetta allt saman heldur sneri hann aftur í íslenska landsliðið í mars þar sem hann skoraði að sjálfsögðu. Þvílíkur maður, þvílíkur leikmaður.“

„Eiður var kannski hjá okkur bara frá því í janúar, en aþð skiptir engu máli. Án hans værum við í skítnum. Eiður Guðjohnsen er leikmaður ársins hjá Bolton fyrir mér,“ segir Chris Manning.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×