„Þessu fylgir bara ólýsanleg tilfinning,“ segir Baldur er hann sest niður með fréttamanni degi eftir að Stjarnan tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir sigur gegn Tindastól í oddaleik úrslitaeinvígis Bónus deildarinnar. „Ég finn fyrir miklum létti gagnvart því að þetta sé búið og hafi endað svona. Gleði, ánægður með alla sem koma að þessu.“
Þetta var fyrsta tímabil Stjörnunnar undir stjórn Baldurs sem tók við liðinu af Arnari Guðjónssyni eftir að hafa verið á mála hjá Ratiopharm Ulm í Þýskalandi árin áður. Baldur stefndi strax að titli með lið Stjörnunnar en það er hægara sagt en gert að láta þá sýn raungerast.
„Þetta er ekki auðvelt, að vinna titil. Ég held að það sé öllum alveg ljóst sem hafa tekið þátt í þessu. Við Ægir Þór höfum verið í þessu yfir langan tíma en þetta er okkar fyrsti Íslandsmeistaratitill, það er gaman að upplifa það. Maður er eiginlega bara smá orðlaus yfir öllu. ÍR serían var erfið, Grindavíkur serían enn þá erfiðari. Þetta eru svo mikil gæði sem þú ert að spila á móti, hrikalega erfitt og bara geggjað að hafa náð svona erfiðu takmarki.“
Baldur hefur á sínum þjálfaraferli lengi verið á höttunum eftir Íslandsmeistaratitli, hann hefur verið grálega nálægt því en einnig horft á eftirmenn sína í starfi ná því takmarki.
„Fyrir mig er þetta persónulega stórt. Ég var grátlega nálægt því að sækja Íslandsmeistaratitil með Tindastól árið 2022, fer þaðan út í atvinnumennsku og horfi á þá vinna titilinn árið eftir. Ég er uppalinn í Þorlákshöfn, var þjálfari liðsins á einum tímapunkti, fer þaðan og horfi á þá taka titil. Það var erfitt í bæði skiptin en auðvitað samgleðst maður þeim sem að tókst að gera þetta. En auðvitað var maður meðvitaður um þetta í baráttunni. Manni langaði þetta alveg rosalega mikið. Þetta er ákveðinn léttir, að hafa náð að gera þetta.“