Innlent

Ummæli Ólafs Stephensen „vítaverð“ að mati forstjóra MS

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Stephensen og Ari Edwald.
Ólafur Stephensen og Ari Edwald. vísir
Mjólkursamsalan (MS) hafnar því að hafa leynt gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu, eins og sagt var í fréttatilkynningu frá Félagi atvinnurekenda (FA) í gær. Í tilkynningunni vakti FA athygli á áskorun félagsins til Samkeppniseftirlitsins um að hraða eins og kostur væri meðferð máls Mjólkurbúsins KÚ en það hefur kvartað yfir verðlagningu MS á hrámjólk.

Í tilkynningunni var vitnað í erindi Ólafs Stephenson, framkvæmdastjóra FA, til Samkeppniseftirlitsins þar sem segir orðrétt:

„FA vill af þessu tilefni ítreka mikilvægi þess að niðurstaða fáist skjótt um framgöngu Mjólkursamsölunnar gagnvart keppinautum sínum. Það er óþolandi að markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að draga málsmeðferð á langinn með því að leyna gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu eins og MS gerði í þessu máli. Smærri keppinautar hafa einfaldlega ekki bolmagn til að bíða niðurstaðna samkeppnisyfirvalda mánuðum og jafnvel árum saman.“

Í tilkynningu frá forstjóra MS, Ara Edwald, segir að ummæli Ólafs séu „vítaverð“. Málflutningur FA og ummælin í tilkynningunni í gær séu þess eðlis að þau geti ekki staðið óleiðrétt.

Í tilkynningunni segir að enginn ágreiningur sé „um að ákvarðanir í stjórnsýslumálum skulu teknar eins fljótt og unnt er. Langur málsmeðferðartími hjá Samkeppniseftirlitinu er bagalegur og hann þarf að stytta.“ Þá hafi MS ekki leynt neinum gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu eins og farið hafi verið yfir með framkvæmdastjóra FA í Kastljósi RÚV.

Þá segir að verðlagsnefnd búvara sé sjálfstæð nefnd og ákvarðanir hennar séu ekki ákvarðanir MS.

Tilkynningu Mjólkursamsölunnar má sjá í heild hér að neðan en henni lýkur á þessum orðum:

„Í dag virðist það líklegt til vinsælda að tala niður íslenskan landbúnað og það samstarf sem bændur hafa byggt upp um vinnslu og sölu á mjólkurafurðum. Við það verður að una. Í þeirri umræðu eins og annarri verður þó að styðjast við staðreyndir. Um annað er ekki beðið.“

Félag atvinnurekenda sendi í gær frá sér fréttatilkynningu, þar sem vakin var athygli á áskorun félagsins til Samkeppniseftirlitsins um að stjórnvaldið hraðaði eins og kostur væri meðferð máls þar sem Mjólkurbúið KÚ hafði kvartað yfir verðlagningu Mjólkursamsölunnar á hrámjólk, áður en Verðlagsnefnd tók hrámjólk til verðlagningar, sem gerðist fyrst í mars 2014.

Í tilkynningu Félags atvinnurekenda segir að erindið hafi verið sent Samkeppniseftirlitinu í ljósi nýlegrar ákvörðunar verðlagsnefndar búvara um hækkun á verði hrámjólkur. Sem fylgdi almennri hækkun mjólkurvara, sem nefndin fjallar um.

Þá sagði orðrétt eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda:

„FA vill af þessu tilefni ítreka mikilvægi þess að niðurstaða fáist skjótt um framgöngu Mjólkursamsölunnar gagnvart keppinautum sínum. Það er óþolandi að markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að draga málsmeðferð á langinn með því að leyna gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu eins og MS gerði í þessu máli. Smærri keppinautar hafa einfaldlega ekki bolmagn til að bíða niðurstaðna samkeppnisyfirvalda mánuðum og jafnvel árum saman.“

Sá málflutningur sem Félag atvinnurekenda hefur kosið að viðhafa og þau vítaverðu ummæli sem framkvæmdastjóri félagsins lætur falla í fréttatilkynningu eru þess eðlis að þau geta ekki staðið óleiðrétt. Nokkur atriði skulu hér nefnd.


1.    Enginn ágreiningur er um að ákvarðanir í stjórnsýslumálum skulu teknar eins fljótt og unnt er. Langur málsmeðferðartími hjá Samkeppniseftirlitinu er bagalegur og hann þarf að stytta. Fyrirtæki sem í hlut eiga hverju sinni, hvort heldur það fyrirtæki sem beinir kvörtun til stjórnvaldsins eða það fyrirtæki sem kvartað er undan, hafa enga hagsmuni af því að tefja málsmeðferð. Mjólkursamsalan er þar engin undantekning og aldrei hefur staðið á því fyrirtæki að veita hverjar þær upplýsingar sem Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir.

2.    Mjólkursamsalan hefur engum gögnum leynt. Áður hefur verið farið yfir þetta með framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í Kastljósi RÚV. Enn er þessu þó haldið fram, gegn betri vitund að þessu sinni. Aftur skal því upplýst að frá öndverðu var Samkeppniseftirlitið upplýst um allt samstarf Mjólkursamsölunnar, Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku. Þrátt fyrir lögbundna rannsóknarskyldu Samkeppniseftirlitsins óskaði stjórnvaldið hins vegar aldrei eftir samningi þessara aðila þar að lútandi. Vegna fyrri mála stóðu forsvarsmenn Mjólkursamsölunnar raunar í þeirri trú að Samkeppnis-eftirlitið hefði nefndan samning undir höndum. Svo reyndist ekki vera. Áfrýjunarnefnd samkeppnis¬mála gerði athugasemd við þennan ágalla á rannsókn Samkeppnis-eftirlitsins og ógilti ákvörðun þess. Enga umfjöllun er að finna í forsendum áfrýjunarnefndar þess efnis að Mjólkursamsalan hafi leynt gögnum við rannsókn málsins, enda væri það ekki sannleikanum samkvæmt.

3.    Verðlagsnefnd búvara er sjálfstæði nefnd sem skipuð er með lögum og hefur lögbundnu hlutverki að gegna. Ákvarðanir þeirrar nefndar eru ekki ákvarðanir Mjólkursamsölunnar. Það er því aðeins til að villa um fyrir lesendum að blanda ákvörðunum þeirrar nefndar saman við þann ágreining Mjólkurbúsins KÚ og Mjólkursamsölunnar sem til meðferðar er hjá Samkeppniseftirlitinu.

4.    Að lokum má skilja fréttatilkynningu Félags atvinnurekenda á þá leið að á meðan áðurgreint mál er enn til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu, þá sé lífið dregið úr smáum keppinauti. Líkt og áður sagði, er löng málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins bagaleg fyrir alla. Ljóst er hins vegar að málsmeðferð vegna rannsóknar á verðlagningu hrámjólkur á tímabilinu 2008-2013 hefur engin áhrif á rekstur Mjólkurbúsins KÚ í dag. Verðlagningu hefur verið breytt og heildsöluverð mjólkur í lausu máli ákveðin sérstaklega af verðlagsnefnd eftir ítarlega greiningu óháðra sérfræðinga. Færi því svo ólíklega að brot gegn samkeppnislögum yrði síðar staðfest af hálfu samkeppnisyfirvalda, þá var það ekki viðvarandi ástand á meðan málið var til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Í dag virðist það líklegt til vinsælda að tala niður íslenskan landbúnað og það samstarf sem bændur hafa byggt upp um vinnslu og sölu á mjólkurafurðum. Við það verður að una. Í þeirri umræðu eins og annarri verður þó að styðjast við staðreyndir. Um annað er ekki beðið.


Tengdar fréttir

Hagfræðiprófessor segir reynt að bola burt KÚ

Hagfræðiprófessor segir að Verðlagsnefnd búvöru rukki samkeppnisaðila Mjólkursamsölunnar um of fyrir mjólk til að knésetja þá. Forstjóri MS segir að án aðkomu hins opinbera lognist landbúnaður hér á landi út af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×