Innlent

Hundur beit þriggja ára dreng í andlitið á Dalvík

Atli Ísleifsson skrifar
Briard-hundur. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Briard-hundur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Hundur, af tegundinni Briard, beit þriggja ára dreng í andlitið á Dalvík síðastliðinn föstudag.

Sauma þurfti þrjú spor í efri vör drengsins sem fór í sundur, auk þess að hundurinn beit stærra stykki úr sömu vör.

Felix Jósafatsson, varðstjóri á Dalvík, staðfestir í samtali við Vísi að málið sé komið inn á lögreglu en að rannsókn sé enn á frumstigi. „Þetta mál kom upp síðdegis á föstudaginn. Hundur beit barnið í andlitið og var það flutt á sjúkrahúsið á Akureyri.“

Heimildir Vísis herma að drengurinn hafi verið að leik með eldri systur sinni og þremur börnum til viðbótar í götunni þegar hundur, sem gekk laus og dvelur oft í húsi nágrannans, kom að þeim. Börnin eltu þá hundinn að húsinu þar sem hann á það til að dvelja þar sem hann beit drenginn í andlitið. Auk sára á vör, var drengurinn með tannför á enni, nefi og höku.

Drengurinn mun þurfa að gangast undir lýtaaðgerð, en það var mat lækna að hún skyldi framkvæmd að nokkrum vikum liðnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×