Innlent

„Drengurinn var bara þakinn í gleri“

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér má sjá hvernig glerinu rigndi yfir bílinn og var fjögurra ára sonur Sæþórs þakinn í gleri.
Hér má sjá hvernig glerinu rigndi yfir bílinn og var fjögurra ára sonur Sæþórs þakinn í gleri. Vísir/Aðsent
„Það voru þarna einhver tonn af gleri sem stráðust yfir bílinn,“ segir Sæþór Steingrímsson um óhapp sem varð við Höfðabakkabrúna á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Óhappið var með þeim hætti að vörubílstjóri hafði gleymt því að hann væri með háan glerfarm á pallinum og fór svo að hann skall upp undir Höfðabakkabrúna.

Kona Sæþórs var í þann mund að reyna að aka fram úr vörubílnum og komin yfir á vinstri akrein þegar glerinu rigndi yfir bílinn. Glerbrotin fóru út um allan bíl í gegnum topplúguna og rúðuna farþegamegin við hlið bílstjórasætisins.

Sæþór segir konuna sína hafa náð að halda bílnum á veginum og komið í veg fyrir að hann færi á aðra bíla. Áfallið hafi hins vegar verið mikið og ekki minnkaði það þegar hún leit aftur í bílinn þar sem fjögurra ára sonur hennar var.

„Drengurinn var bara þakinn í gleri. Það er einhver verndarengill yfir honum því það var ekki skráma á honum.“

Sjálfur var Sæþór í vinnu á Korputorgi þegar óhappið átti sér stað og var mjög fljótur á staðinn. Hann ræddi við ökumann vörubílsins. „Hann var alveg miður sín. Hann vissi alveg af þessum farmi svo bara steingleymdi hann því þegar hann var á leiðinni úr bænum,. Hann ætlaði að fara upp á brúna, auðvitað má ekki keyra undir brúna með svona háan farm,“ segir Sæþór.

Hann segir konu sem varð vitni að þessu óhappi hafa boðið konu Sæþórs og syni inn í bíl til sín og hlúð að þeim þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang.  „Hún tók vel utan um þau. Alveg frábær kona,“ segir Sæþór.


Tengdar fréttir

Gleymdi sér og augnabliki síðar rigndi gleri

"Nálægir vegfarendur geta verið í stórhættu ef eitthvað ber útaf. Hingað til hefur þetta sloppið en stundum hefur munað litlu,“ segir Ómar Smári Ármannsson, yfirmaður á umferðardeild lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×