Innlent

Engin „mömmustríð“ á milli íslenskra mæðra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Öfugt við mikla samkeppni milli áhyggjufullra bandrískra foreldra líði íslenskum mæðrum vel, ef marka má umfjöllun The New Yorker.
Öfugt við mikla samkeppni milli áhyggjufullra bandrískra foreldra líði íslenskum mæðrum vel, ef marka má umfjöllun The New Yorker. vísir/gva
Það er víst nokkur munur á því að vera móðir á Íslandi og í Bandaríkjunum ef marka má umfjöllun bandaríska tímaritsins The New Yorker.

Í greininni, sem ber yfirskriftina „Sjálfstæðar mæður Íslands“, segir að öfugt við mikla samkeppni milli áhyggjufullra bandrískra foreldra líði íslenskum mæðrum vel. Þar sem þær séu flestar útivinnandi eru engin „mömmustríð“ hér á milli útivinnandi mæðra og heimavinnandi mæðra, en slík „stríð“ eru víst þekkt í Bandaríkjunum.

Blaðamaður The New Yorker vekur einnig athygli á að tveir þriðju íslenskra barna fæðast utan hjónabands. Pör eignist oft barn fyrst og gifti sig svo eða gifti sig einfaldlega ekki. Þá sé mikið af einstæðum mæðrum á Íslandi en titill greinarinnar vísar einmitt í ljósmyndasýningu á Akureyri þar sem sex, íslenskar einstæðar mæður eru sýndar í sínu daglega lífi.

Íslenskt samfélag dæmir ekki einstæðar mæður

Myndirnar á sýningunni eru eftir kanadíska ljósmyndarann Annie Ling. Hún segir í samtali við The New Yorker að íslenskt samfélag dæmi þær ekki, einstæðu mæðurnar.

„Svo vegna þess að staða þeirra er samþykkt þá líður þeim vel í móðurhlutverkinu,“ segir Ling.

Engu að síður sé ekki auðvelt að vera einstæð móðir þó að það sé ekki litið hornauga eins og ljósmyndarinn komst að þegar hún myndaði konurnar.

„Ein móðirin hafði átt frekar erfiðan dag þegar ég kom til hennar. Hún sagði mér að maðurinn sem hún var að hitta hefði hætt með henni og mamma hennar var á spítala svo hún var að spjalla við hana í símann. Hún var að gefa krökkunum að borða, baða þau, koma þeim í rúmið og svo hitaði hún kvöldmatinn upp fyrir sig þegar þau börnin voru farin að sofa.“



Umfjöllun The New Yorker og nokkrar af myndum Annie Ling af íslensku mæðrunum má sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×