Innlent

Úthluta fatakortum í stað notaðra fata

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
MYND: Marielle Rosento og Sesselja Þórðardóttir sjálfboðaliðar Rauða krossins afhenda fatakort á skrifstofu Rauða krossins í Efstaleiti í gær.
MYND: Marielle Rosento og Sesselja Þórðardóttir sjálfboðaliðar Rauða krossins afhenda fatakort á skrifstofu Rauða krossins í Efstaleiti í gær.
Rauði krossinn hóf í gær afhendingu fatakorta til einstaklinga og fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu til að mæta brýnni þörf fólks sem býr við þrengingar. Kortið virkar sem úttektarheimild í verslunum Rauða krossins með notuð föt á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Rauði krossinn hefur hingað til úthlutað notuðum fatnaði í sérstöku rými en með tilkomu fatakorta getur fólk, sem á þarf að halda, sótt um að fá fatakort. Það getur síðan farið í verslanir félagsins á höfuðborgarsvæðinu, keypt sér föt og borgað með fatakorti.

„Með fatakortunum hafa skjólstæðingar Rauða krossins sama vöruúrval í verslunum félagsins á höfuðborgarsvæðinu og allur almenningur,“ segir Þórir Guðmundsson deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík.

Hægt er að sækja um fatakort á vef Rauða krossins,www.raudikrossinn.is, og milli kl. 14 og 16 á þriðjudögum og fimmtudögum í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×