Innlent

Illugi segir fjármagn til RÚV óbreytt þrátt fyrir lækkun útvarpsgjalds

Bjarki Ármannsson skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir Ríkisútvarpið á næsta ári koma til með að hafa að lágmarki jafn mikið fjármagn milli handanna og nú í ár, þrátt fyrir að frumvarp ráðherrans um óbreytt útvarpsgjald hafi ekki náð í gegn við afgreiðslu fjárlaga. Hann segir niðurstöðuna í málinu mjög viðunandi.

Líkt og Vísir hefur greint frá, hefur Illugi legið undir ámæli fyrir að hafa ekki komið því í gegn að útvarpsgjaldið yrði óbreytt en samkvæmt fjárlagafrumvarpi verður það lækkað úr 17.800 krónum í 16.400. Á móti koma þó aukin framlög til Ríkisútvarpsins á fjárlögum. Í viðtali við útvarpsþáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag segir Illugi það mikla einföldun að hann hafi „tapað“ í málinu.

„Það er rétt að ég hafði lagt það til fyrir mörgum mánuðum síðan að við myndum ekki setja Ríkisútvarpið í þá stöðu að lækka útvarpsgjaldið,“ segir Illugi. „Það var vegna þess að ég taldi að það væru ennþá það mikil vandamál í rekstrinum að menn gætu ekki lokað augunum fyrir þeim. Niðurstaðan í málinu verður sú að, jú, útvarpsgjaldið verður tekið niður en á móti kemur að framlagið verður hækkað um 175 milljónir. Líklega munu koma inn að lágmarki 60 milljónir því til viðbótar á næsta ári, bara vegna þess að það verða fleiri gjaldendur.“

Illugi nefnir einnig að Ríkisútvarpið kom nýlega í verð byggingarrétti sínum á lóð við Efstaleiti 1 og var hann seldur fyrir um einn og hálfan milljarð króna. Lóðin hafi verið í eigu Ríkissjóðs en ákveðið hafi verið að láta féð renna til Ríkisútvarpsins til að greiða niður skuldir félagsins.

„Að lágmarki verður fjármagnið sem Ríkisútvarpið hefur á næsta ári það sama og það hafði á þessu ári. Meira að segja að teknu tilliti til verðbólgu. Þannig að þegar menn eru í einhverjum samkvæmisleikjum um það hvort einstakir ráðherrar hafi tapað eða unnið málið ... ja, ef menn vilja halda slíkt bókhald þá er það rétt að ég náði ekki fram frumvarpinu en ég náði þessu fram í staðinn og ég held að það sé mjög viðunandi niðurstaða.“

Viðtal Reykjavík síðdegis við Illuga um málefni RÚV má hlusta á í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir

Tvísýnt um pólitískt líf Illuga

RUV-frumvarp Illuga Gunnarssonar er við að leysast úr læðingi og er nú til kynningar hjá þingflokksformönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×