Innlent

Engin bifreið á Norðurlandi með byssu

Sveinn Arnarsson skrifar
Lögreglumaður kom á vettvang umferðarslyss í Ljósavatnsskarði í vetur vopnaður skammbyssu. Í svari embættis ríkislögreglustjóra segir að engin lögreglubifreið sé útbúin vopnum á svæðinu.
Lögreglumaður kom á vettvang umferðarslyss í Ljósavatnsskarði í vetur vopnaður skammbyssu. Í svari embættis ríkislögreglustjóra segir að engin lögreglubifreið sé útbúin vopnum á svæðinu.
Átján almennar lögreglubifreiðar eru búnar skotvopnum á landinu öllu en í lok júní á þessu ári voru tólf almennar lögreglubifreiðar á landinu búnar skotvopnum.

Sjö lögreglumenn féllu á skotvopnaprófi lögreglunnar á þessu ári. Þetta kemur fram í svari Jóns F. Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn Fréttablaðsins um vopnaburð íslensku lögreglunnar.

Að sögn Jóns fá lögreglumenn 69 klukkustunda þjálfun í aðgerðum á hverju ári. Inni í því er skotvopnaþjálfun. Lögreglumenn skjóta um 400 skotum úr Glock-skammbyssum þar sem skotið er úr kyrrstöðu, á hreyfingu og undir álagi.

„Á þessu ári voru sjö lögreglumenn sem ekki stóðust prófið. Æfingar og próf eru undir stjórn viðurkenndra skotvopnaþjálfara. Á þessu ári hafa 355 lögreglumenn hlotið þjálfun í notkun Glock og er þá sérsveitin meðtalin,“ segir Jón.

„Varðandi fjölda bifreiða þá eru, auk bifreiða sérsveitar, 18 lögreglubifreiðar hjá lögregluliðunum búnar skotvopnum. Ein bifreið er hjá lögreglustjórunum á Suðurnesjum, fimm á höfuðborgarsvæðinu, fjórar á Vestfjörðum, fimm á Austurlandi og þrjár á Suðurlandi.

Þær voru 12 í lok júní síðastliðins. Fjórar hjá lögreglustjórunum á Vestfjörðum, fimm á Austurlandi og þrjár á Suðurlandi,“ segir Jón. Athygli vekur að fjölgun bifreiða er aðeins á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vekur nokkra athygli í svari ríkislögreglustjóra að engin lögreglubifreið á Norðurlandi og Vesturlandi er útbúin skotvopnum.

Ástæður þess að almennar lögreglubifreiðar eru útbúnar Glock-skammbyssum er til að stytta viðbragðstíma lögreglu þegar vá steðjar að og vopna er krafist. Er það gert til að tryggja öryggi borgaranna samkvæmt lögreglunni. Að mati lögreglunnar er hún ekki að vopnast umfram það sem verið hefur og ekki er verið að auka heimildir lögreglu til að vopnast frá því sem nú er.

Einnig stendur ekki til að breyta því fyrirkomulagi að almennir lögreglumenn séu óvopnaðir við dagleg störf. Einnig þurfi að tryggja öryggi lögreglumanna. „Þá verður að hafa í huga vinnuverndarlöggjöf og skyldu vinnuveitanda til að gætt sé fyllsta öryggis og að starfsmenn hafi fullnægjandi þjálfun og búnað. Það er ekki forsvaranlegt að senda óvopnaða lögreglumenn til að eiga við aðila vopnaða skotvopnum,“ segir í svari Jóns Bjartmarz.

„Ákvörðun um að geyma vopn í lögreglubifreiðum í stað þess að geyma þau á lögreglustöðvum er í höndum viðkomandi lögreglustjóra að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra. Nokkur lögreglulið á landsbyggðinni hafa geymt vopn í lögreglubifreiðum undanfarin ár sökum þess að mat viðkomandi lögreglustjóra hefur verið að þörf sé fyrir slíkar ráðstafanir, m.a. til þess að stytta viðbragðstíma lögreglu komi til alvarlegra vopnamála,“ segir Jón.

„Áhersla lögreglu á það að stytta viðbragðstíma snýr sérstaklega að nýjum tegundum árásaraðferða en ekki vopnaburði hefðbundinna afbrotamanna. Um er að ræða tilfelli þar sem stöðva þarf árásaraðila án nokkurrar tafar og tryggja vettvang svo hægt sé að veita lífsbjargandi aðstoð.“

Hvernig fara skotpróf fram

1.
Byssa tekin sundur og sett saman. Hámarkstími er 5 mínútur.

2. 2x5 skot af 5 metra færi. Skotskífa er 30 cm x 30 cm, hvítt blað. Vopnið er tilbúið til notkunar í hulstri og hulstur smellt aftur. Eftir skipun er vopnið dregið úr hulstri og einu skoti skotið. Hámarkstími er 5 sekúndur. Vopn sett í hulstur og hulstri smellt aftur. Síðan endurtekið. Til að stand­ast þennan hluta þurfa 4 skot af 5 að vera í skotskífunni.

3. 5 skot af 7 m færi. Skotskífa er 30 cm x 30 cm að stærð, hvítt blað. Vopnið er tilbúið til notkunar og haldið í viðbragðsstöðu. Eftir skipun er einu skoti skotið. Hámarkstími er 5 sekúndur. Vopn sett í viðbragðsstöðu og síðan endurtekið. Til að standast þennan hluta þurfa 4 skot af 5 að vera í skotskífunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×