Innlent

Ölvaður ökumaður reyndi að skalla lögreglumann við handtöku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tveir ökumenn á Suðurlandi voru grunaðir um ölvun seinustu vikuna.
Tveir ökumenn á Suðurlandi voru grunaðir um ölvun seinustu vikuna. vísir/getty
Það var mikið að gera hjá lögreglunni á Suðurlandi um jólin en eins og greint hefur verið frá urðu tvö hörmuleg slys í umdæmi lögreglunnar yfir hátíðirnar. Annars vegar varð banaslys í Öræfum þegar tveir bílar skullu saman á einbreiðri brú á annan í jólum og hins vegar var manns leitað í og við Ölfusá en hann er nú talinn af.

Af öðrum verkefnum lögreglunnar á Suðurlandi liðna viku má nefna að tveir voru handteknir vegna ölvunaraksturs. Annar ökumaðurinn keyrði á kyrrstæða bifreið aðfaranótt þriðjudags en hann brást ill við þegar lögreglan handtók hann. Reyndi hann meðal annars að skalla lögreglumann meðan á handtökunni stóð og barðist um.

 

Við leit á manninum fannst svo lítilræði af kannabis. Hann var færður í fangageymslu þar sem hann var látinn sofa úr sér, að því loknu yfirheyrður og svo látinn laus.

Hinn maðurinn sem handtekinn grunaður um ölvunarakstur hafði farið út af Skeiðavegi við Kílhraun aðfaranótt aðfangadags. Þegar lögreglan mætti á staðinn vaknaði grunur um að maðurinn væri undir áhrifum og var hann því handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður. Beðið er niðurstöðu blóðrannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×