Innlent

Akstursstyrkir til foreldra leikskólabarna á Hvolsvelli frá áramótum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra. vísir/mhh
„Þetta eru nýjar afsláttareglur hjá okkur sem taka gildi um áramótin og ná til foreldra sem eiga lengst að koma til að  sækja leikskólapláss fyrir börn sín.  Ástæða nýju reglnanna er sú að við erum með einungis einn leikskóla í sveitarfélaginu, það er á Hvolsvelli.  Við gerðum tilraun með aðra leikskóladeild undir Eyjafjöllum,  það var reyndar dagvistun eins og hjá dagmæðrum. Því miður voru ekki nægilega mörg börn sem sóttu þá þjónustu og þá leituðum við aðra leiða og þetta varð útkoman,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra vegna nýju reglnanna en yfirskrift þeirra er „Akstursstyrkir til leikskólabarna“.

Foreldrar þurfa sjálfir að sækja um þessa styrki og þeir þurfa að uppfylla ákveðin ákvæði svo sem um 5 daga vistun, hafa búsetu og lögheimili í sveitarfélaginu í meira en 20 kílómetra fjarlægð frá leikskóla, það er aðra leið. Afslátturinn nemur 20 prósentum af grunnvistunargjöldum leikskólans Arkar á Hvolsvelli.

„Um margra ára skeið hafa fimm ára börn úr dreifbýli átt kost á því að ferðast með skólabíl og taka þátt í skólastarfi  í leikskólanum á Hvolsvelli.  Afar góð reynsla er af því. Þannig læra börnin að umgangast hvert annað áður en til hefðbundins skólastarf kemur. Einnig er mjög gott samstarf milli leikskóla og grunnskóla þar sem verið er að undirbúa yngstu börnin undir það að hefja nám í grunnskólanum. Það er mikið stökk að koma úr vernduðu umhverfi leikskólans í grunnskólann þar sem mikill aldursmunur er á þeim elstu og yngstu. Við erum þakklát fyrir þetta góða samstarf sem er afar mikilvægt að mínu mati,“ segir Ísólfur Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×