Innlent

Sjá ávinning í að efla starfsmenntun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Menntamálastofnun vinnur með framhaldsskólum og starfsgreinaráðum að námsbrautalýsingum í starfsnámi.
Menntamálastofnun vinnur með framhaldsskólum og starfsgreinaráðum að námsbrautalýsingum í starfsnámi. vísir/Vilhelm
Fram undan er átak í að fjölga nemendum sem ljúka starfsnámi. Til þess að svo verði þarf að koma á markvissu námi sem höfðar til nemenda, tryggja nemendum vinnustaðanám og stofna fagháskólastig þannig að ungt fólk líti á starfsnám sem lykil í áframhaldandi nám á háskólastigi, þetta kom fram á fundi Menntamálastofnunar og Rannís á miðvikudaginn undir yfirskriftinni: Átak í starfsmenntun – starfsgreinaráðin, skólarnir og stoðkerfið.

Menntamálastofnun, sem tók formlega til starfa í október, vinnur með framhaldsskólum og starfsgreina­ráðum að námsbrautalýsingum í starfsnámi. Menntamálastofnun vill tryggja samtal atvinnulífs og skóla á þessari vegferð og leggur áherslu á að nám taki mið af þörfum atvinnulífsins.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir að þetta sé eitt af málunum sem hafi verið í umræðunni í þó nokkurn tíma. „Þetta kom fram meðal annars í vinnuhóp sem ráðuneytið setti af stað. Menn sjá sér ávinning í að efla starfsmenntun. Það er ákveðin brú upp í háskóla eftir starfsnám á framhaldsskólastigi. Í löndum eins og Sviss og Austurríki, þar sem er gömul hefð fyrir starfsmenntun, horfa menn á að beint framhald liggi frá starfsmenntun upp á háskólastig,“ segir Arnór.

Arnór segir að enn hafi ekki verið komist að neinni niðurstöðu um málið, enn þá sé verið að ræða hvort eigi að byggja þetta upp innan framhaldsskóla, háskóla eða í sérskólum. Menntamálaráðuneytið ákveði hvernig eigi að útfæra þetta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×