Innlent

120 milljónir fuku út í buskann hjá Landsneti

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Viðgerð er að mestu lokið á háspennulínum Landsnets eftir óveðrið sem gekk yfir landið í byrjun síðustu viku. Beint tjón fyrirtækisins vegna veðursins er í tilkynningu sagt vera 120 milljónir króna.

Haft er eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, að brýnt sé að hefjast handa við styrkingu meginflutningskerfis fyrirtækisins. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem félagið vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda.

„Það voru eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust. Stærri línurnar okkar, sem eru bæði nýrri og með stálgrindarmöstrum, stóðust veður­álagið, eins og til dæmis á Hallormsstaðarhálsi þar sem vindstyrkurinn fór yfir 72 metra á sekúndu í hviðum,“ segir hann.

Mest var tjónið á Vestfjörðum þar sem 20 möstur í flutningskerfinu gáfu sig vegna vindálags og ísingar í Breiðadalslínu 1 í Dýrafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×