Innlent

Tæpur helmingur ekki með ADHD

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Á geðsviði Landspítala leitar fólk aðstoðar ADHD teymisins vegna einbeitingarörðugleika, tæpur helmingur fær ekki greiningu.
Á geðsviði Landspítala leitar fólk aðstoðar ADHD teymisins vegna einbeitingarörðugleika, tæpur helmingur fær ekki greiningu. vísir/vilhelm
Páll Magnússon sálfræðingur
„Einbeitingar­örðugleikar geta orsakast af öðru en ADHD,“ segir Páll Magnússon sálfræðingur sem er teymisstjóri ADHD-teymisins á geðsviði Landspítalans. Tæpur helmingur þeirra fullorðinna sem leita eftir greiningu greinist ekki með ADHD og fær ráðgjöf um að leita annað til að öðlast betri einbeitingu.

„Í heildina er liðlega helmingurinn af tilvísunum með ADHD, en um 45 prósent reynast ekki vera með ADHD, segir Páll. „Þessi hópur er greinilega í vanda en við gerum í sjálfu sér ekki neitt nema í þeim tilvikum sem við sjáum að er þörf á sérstökum úrræðum, þá látum við fylgja ráðgjöf um það.“

Hann segir þann hóp fullorðinna sem fær ekki greiningu stundum hafa einkenni ADHD en vera undir greiningarmörkum. „Hins vegar er það þannig að einbeitingarörðugleikar geta orsakast af mörgu öðru en ADHD, þá sérstaklega kvíða og þunglyndi. Stundum er það niðurstaðan.“

Alls bíða 600 einstaklingar greiningar hjá ADHD-teymi Landspítalans.

Þrjú til fimm prósent fullorðinna eru talin vera með ADHD en allt að 70 prósent barna sem greinst hafa með ADHD hafa áfram verulega hömlun af ADHD-einkennum á fullorðinsaldri. Fylgifiskar ADHD geta verið kvíði og þunglyndi, fíkn, námserfiðleikar og svefntruflanir.

Fullorðnir með ADHD eru með hærri tíðni andfélagslegrar hegðunar svo sem þjófnaða, líkamsárása og vímuefnamisferlis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×