Innlent

Ungt fólk fái skattlaust ár

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Formaður Stúdentaráðs HÍ segir helming námsmanna búa í foreldrahúsum eða á Stúdentagörðum. Stór hluti sér ekki fram á að geta keypt fasteign.
Formaður Stúdentaráðs HÍ segir helming námsmanna búa í foreldrahúsum eða á Stúdentagörðum. Stór hluti sér ekki fram á að geta keypt fasteign. Vísir/Vilhelm
„Við höfum áhyggjur af því að fólk festist í viðjum leigumarkaðar og það nái aldrei að verða til eignarmyndun,“ segir Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs HÍ. Hann heldur erindi á ráðstefnu Reykjavíkurborgar um íbúðamarkaðinn um helgina.

Aron bendir á að helmingur námsmanna búi í foreldrahúsum eða á stúdentagörðum. Samkvæmt könnun Stúdentaráðs sjái 74 prósent nemenda fram á að kaupa íbúð, en af þeim sjái 31 prósent ekki fram á að kaupa íbúð fyrr en að fimm ár eða meira eru liðin frá lokum náms. Einhverjir þeirra geri sér jafnvel ekki í hugarlund hvenær þeir nái að safna fyrir útborgun í íbúð.

Aron nefnir nokkrar lausnir, sem hið opinbera gæti gripið til, í því skyni að hjálpa ungu fólki að eignast íbúð. Í fyrsta lagi að fella niður stimpilgjöld af fyrstu íbúðunum. „Það er strax eitthvað,“ segir Aron. Einnig þurfi að endurskoða byggingarregluverkið þannig að hægt sé að smíða íbúðir sem eru fyrir þennan markhóp. „Í dag er skortur á búsetuúrræði fyrir ungt fólk. Þannig að um leið og hægt er að byggja minni íbúðir og hagkvæmari íbúðir er búið að opna á ódýrara byggingar­form sem getur þjónustað yngra fólk,“ segir hann.

Aron nefnir líka þá hugmynd að bjóða upp á skattlaust ár fyrir ungt fólk. Hann telur að það gæti haft tvenns konar áhrif. Annars vegar myndi ungt fólk ná að byggja upp eigið fé. Viðskiptabankar gætu stigið inn og boðið upp á bundna reikninga sem tekjuskatturinn yrði greiddur inn á í stað þess að hann færi til ríkisins. „Einnig gæti það leitt til þess að ungt fólk breyti um sýn á það hvernig skattar virka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×