Innlent

Skuldbinda sig til að reyna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag. vísir/anton brink
Yfirlýsing um aðgerðir í loftslagsmálum var undirrituð í Höfða í dag. Alls skuldbundu 103 fyrirtæki og stofnanir sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Auk þess verður árangur mældur og upplýsingum um stöðu mála miðlað reglulega.

Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efndu til þessa samstarfs. Í tilkynningu frá Festa segir að þátttakendum verði boðin fræðsla um loftslagsmál, bæði hvernig nálgast megi viðfangsefnið með praktískum hætti og reynslusögur annarra fyrirtækja af því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri. Samanlagður starfsmannafjöldi fyrirtækjanna sem taka þátt í verkefninu er 43 þúsund.

„Stefna Reykjavíkurborgar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35% fyrir árið 2020. Stefnan var fyrst sett fram árið 2009 og er nú hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur. Einnig er unnið að stefnumörkun borgarinnar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigins reksturs borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×