Innlent

Á sakaskrá vegna 0,03 gramma af kannabis

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Kolbrún ræddi um refsingar og löggjöf  vegna fíkniefnabrota á málþingi um kannabis á dögunum. Hún veltir fyrir sér hvort gera þurfi breytingar á refsingum.
Kolbrún ræddi um refsingar og löggjöf vegna fíkniefnabrota á málþingi um kannabis á dögunum. Hún veltir fyrir sér hvort gera þurfi breytingar á refsingum. Vísir/Valgarð
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara fjallaði fyrir helgi um löggjöf og refsingar fyrir fíkniefnabrot á málþingi Fræðslu og forvarna um kannabis.

Á málþinginu velti hún upp þeirri spurningu hvort minnstu brot vegna vörslu fíkniefna ætti að tilgreina í sakavottorði.

Í dag fer dómur eða viðurlagaákvörðun fyrir vörslu fíkniefna inn á sakaskrá sama hversu brotið er lítið. Hafi máli lokið með sekt er það tilgreint í sakavottorði í þrjú ár.

„Menn eru mjög uppteknir af sakavottorðinu, það er eins og við megum bara ekki sækja um vinnu eða fara til útlanda án þess að framvísa sakavottorði. Ég hef ekki verið beðin um að framvísa sakavottorði neins staðar,“ sagði Kolbrún og sagði helst óskað eftir sakavottorðum á grundvelli barnaverndarlaga.



„En eiga þessi brot að koma fram á sakavottorði? Er eðlilegt að 50 þúsund króna sekt vegna vörslu efna sem menn eru teknir með, sem eru ef til vill bara 0,03 grömm af kannabis, komi fram í sakavottorði? Þá er ekki verið að finna nema leifar af efni hjá viðkomandi. Þetta er samt brot og það er sektað fyrir það. Þá veltir maður því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að setja slíkt inn,“ sagði Kolbrún og bar slík brot saman við umferðarlagasektir en þar er ákveðið lágmark á sektum áður en til þess kemur að greina frá viðurlagaákvörðun í sakavottorði. „Það eru bara sektir hærri en hundrað þúsund krónur sem skráðar eru í sakavottorð.“

Kolbrún segir ekki eðlilegt að embættismenn taki ákvörðun um að afnema slíkar skráningar. „Ég held að það sé mjög eðlilegt að þetta sé pólitísk ákvörðun.“

Kolbrún ræddi einnig almennt um refsiramma fíkniefnabrota og rifjaði upp umdeildan dóm þar sem burðardýr fékk ellefu ára fangelsisdóm. „Það fór eiginlega allt á hliðina. Það er mikil gerjun í þessari umræðu og ég held að það sé mjög jákvætt. Vonandi verða íslensk stjórnvöld með í þeirri umræðu. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt.“

Hún ræddi einnig um ýmis vandkvæði í sambandi við refsingar fyrir fíkniefnabrot. Ekki sé refsivert að flytja ný fíkniefni til landsins. „Það þarf sífellt að vera að bæta inn á þessa lista nýjum og nýjum fíkniefnum.

Við höfum lent í því að innflutningur á þessum efnum, sem eru ný og eru ekki á þessum listum, er ekki refsiverður,“ segir Kolbrún.

Málþingið var haldið í samstarfi við Embætti landlæknis og velferðarráðuneyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×