Innlent

Sjálfstæðismenn biðja guð um að blessa Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Sjálfstæðismenn skjóta föstum skotum á Dag B. Eggertsson borgarstjóra á Twitter.
Sjálfstæðismenn skjóta föstum skotum á Dag B. Eggertsson borgarstjóra á Twitter. Vísir/Vilhelm
Gert er ráð fyrir rúmlega þrettán milljarða króna halla á rekstri borgarsjóðs Reykjavíkur á árinu og hafa margir áhyggjur af stöðu mála. Sér í lagi ungir sjálfstæðismenn sem hafa komið af stað kassamerkinu #GuðBlessiReykjavík á Twitter.

Fyrsta tvítið var sett inn fyrir um þremur klukkutímum þar sem vitnað var í skrif Magnúsar Sigurbjörnssonar, framkvæmdastjóra borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, sem sagði aðalsjóð borgarinnar stefna hraðbyri á Íslandsmet í taprekstri þar sem hann væri þrettán milljörðum yfir áætlun en samkvæmt útkomuspá verður tap ársins 18,2 milljarðar króna.

Nokkrir hafa blandað sér í umræðuna og bent á að það sé fremur kómískt að ungir sjálfstæðismenn notist við Guð blessi Reykjavík sem er svo líkt kveðju Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, til íslensku þjóðarinnar þegar hann bað guð um að blessa Ísland í miðju efnahagshruninu árið 2008.

Aðrir benda á að það sé ekki til neins að afsaka skelfilega stöðu borgarsjóðs með því að benda á að efnahagshrun hefði átt sér stað á Íslandi árið 2008. Grípa þurfi til tafarlausra aðgerða og vilja margir meirihlutann borgarstjórnarinnar frá.

Fylgjast má með umræðunni hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×