Innlent

Högum er áfram heimilt að nota Bónusgrísinn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ekki þarf að ónýta allar umbúðir, burðarpoka, fatnað, auglýsingaefni, reikningseyðublöð og allt annað lausafé, sem geymir teikningu af bónusgrísnum líkt og Edith fór fram á.
Ekki þarf að ónýta allar umbúðir, burðarpoka, fatnað, auglýsingaefni, reikningseyðublöð og allt annað lausafé, sem geymir teikningu af bónusgrísnum líkt og Edith fór fram á. vísir/gva
Hagar hafa verið sýknaðir af kröfu Edith Randy Ásgeirsdóttur um að fyrirtækinu yrði bannað að nota Bónusgrísinn svokallaða, sem hefur um langa hríð verið notaður sem vörumerki Bónus.

Edith teiknaði grísinn árið 1989, sama ár og Bónus var stofnað. Þá vann fyrirtæki hennar að gerð auglýsinga og margvíslega hönnunarvinnu vegna rekstrar verslananna allt fram á árið 2007.

Árið 1991 náði Edith samkomulag við Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson, sem þá áttu Bónus um að Bónus fengi eignar-, notkunar- og umráðarétt á grísnum. Í samningnum kom fram að Edith gæti, næstu 20 árin afturkallað notkunar-, umráða- og eignarrétt sinn yrði breyting á eignarhaldi Bónus.

Deila aðila sneri meðal að því hvort málið lyti reglum höfundarréttar eða vörumerkjaréttar. Niðurstaða Hæstaréttar var að teikningin af grísnum bæri slík sérkenni að hún nyti verndar höfundalaga.

Með samkomulaginu frá 1991, sem Hagar töldu falsað, framseldi Edith félaginu Bónus-Ísaldí rétt til að nota teikninguna en fyrir lá einnig að merkið hefði verið notað áður en samkomulagið hafði verið gert. Ári síðar var rekstur verslananna skilinn frá hlutafélaginu með stofnun sameignarfélagsins Bónus sem var eigu Bónus-Ísaldí og Fjárfestingafélagsins Þors.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að fyrirsvarsmenn síðarnefnda félagsins hafi verið grandlausir um það samkomulag sem áfrýjandi hafði áður gert við Bónus-Ísaldí hf. og hún reisir rétt sinn á. Með yfirtöku á rekstri umræddra verslana eignaðist Bónus sf. rétt til að nota vörumerkin sem tilheyrðu rekstrinum. Samhliða því að sameignarfélagið tók við þessum rekstrarþætti fékk það framseldan rétt til að nota myndverk áfrýjanda með vörumerkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×