Innlent

Eldur kom upp í Bjarna Sæmundssyni

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðið að störfum í slippnum.
Slökkviliðið að störfum í slippnum. Vísir/Vilhelm
Eldur kom upp í vélarrými Bjarna Sæmundssonar RE, rannsóknarskipi Hafrannsóknarstofnunar, sem er í slippnum við Reykjavíkurhöfn í þriðja tímanum í dag. Allt tiltækt slökkvilið var sent á vettvang.

Enginn starfsmaður Slippsins var í hættu, en eldurinn kom upp við logsuðu.

Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var vélarrými Bjarna lokað af og sjálfvirkt slökkvikerfi sett í gang. Kerfið dælir efni inn í rýmið sem dregur úr súrefni þar og í raun kæfir eldinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur kerfið virkað vel. Reykkafarar fóru inn í vélarrýmið og hefur eldurinn verið slökktur að mestu. Einhver glóð eru sögð vera eftir.

Slökkviliðsmenn eru byrjaðir að taka saman og er slökkvistarfi að mestu lokið.

Skipið Bjarni Sæmundsson RE var smíðað í Þýskalandi árið 1970 og hefur siglt um höfin frá 1971. Það er 50 metra langt og um 800 tonn að þyngd.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×