Innlent

Ekki stefnubreyting að hafna gjafsókn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Iz El Din kom til Íslands fyrir ári og hefur átt við alvarlegt þunglyndi að stríða.
Iz El Din kom til Íslands fyrir ári og hefur átt við alvarlegt þunglyndi að stríða.
Ávallt fer fram einstaklingsbundið mat á því hvort veita eigi gjafsókn vegna málareksturs, einnig þegar sótt er um gjafsókn þar sem ætlunin er að leggja fyrir dómstóla að fara yfir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort stefnubreyting hafi orðið í gjafsóknarveitingu hælisleitenda sem skulu sendir burt á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einnig segir að gjafsókn sé einungis veitt ef gjafsóknarnefnd mæli með því. Við mat á gjafsókn er grund­vallar­skilyrði að málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málshöfðunar.

Í vikunni fengu þrír hælisleitendur synjun um gjafsókn sem lögmaður þeirra, Katrín Oddsdóttir, sagði afar óvenjulegt enda hefði verið þrýst á hana af meðal annars Rauða krossinum að taka málin að sér.

Katrín tekur sem dæmi skjólstæðing sinn sem kemur frá Darfur í Súdan. Hann hefur vottorð frá læknum um að vera of veikburða og andlega veikur til að ferðast en ætlunin er að senda hann til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar bjó hann á götunni þar til hann kom til Íslands.

„Ef ég verð sendur burt frá Íslandi, þá mun ég fyrirfara mér,“ segir Iz El Din Mouhammed, sem er átján ára gamall og hefur verið á flótta frá unga aldri. „Ég mun hoppa út um gluggann.“

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur sagt opinberlega að ekki sé boðlegt að senda hælisleitendur til Ítalíu og Grikklands vegna aðstæðna þar.

Í svari innanríkisráðuneytisins er áréttað að þegar niðurstaða Útlendingastofnunar er kærð þá fari endurskoðun á málinu fram hjá sjálfstæðri stjórnsýslunefnd, kærunefnd útlendingamála. „Þannig er fjallað um slík mál á tveimur stjórnsýslustigum.“


Tengdar fréttir

Hælisleitendur fá ekki gjafsókn

Lögmaður segir yfirvöld hafa breytt stefnu sinni án þess að kynna það formlega og neiti hælisleitendum um gjafsókn í dómsmálum. Gríðarlega alvarlegt sé að minnihlutahópur sé útilokaður frá dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×