Innlent

„Neyðarbrautin“ yrði ekki virk

Stefán Óli Jónsson skrifar
Vélar Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli.
Vélar Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli. Fréttablaðið/GVA
ÞG verktakar hafa sent beiðni til Samgöngustofu um að fá að reisa fyrstu byggingarkranana á Hlíðarendasvæðinu svokallaða þar sem um sex hundruð íbúðir og stærsta hótel landsins munu rísa á næstu misserum.

Fáist beiðnin samþykkt verður ekki hægt að nota norðaustur-/suð­vestur­flugbrautina, sem oft hefur verið kölluð „neyðarbrautin“, meðan á framkvæmdum stendur.

Þorvaldur Gissurarson, eigandi ÞG verktaka, sagði í samtali við Vísi að fyrirtækinu hafi ekki borist endanlegt svar frá Samgöngustofu. Hann býst við því á allra næstu dögum enda sé gert ráð fyrir fyrstu skóflustungunni á svæðinu á morgun eða þriðjudag.

Þorvaldur segir að lengi hafi verið ljóst að leggja verði niður flug um brautina meðan á þessum framkvæmdum stendur. „Það lá alltaf fyrir að þetta flug yrði lagt niður svo að byggð gæti risið á svæðinu,“ segir Þorvaldur.

„Við skiptum okkur svo sem ekkert af því enda gera ÞG verktakar ekki neitt annað en að koma inn á lóð sem er deiliskipulögð af Reykjavíkurborg og með útgefið byggingarleyfi sem búið var að gefa út áður en við fórum af stað. Fyrir okkur er þetta nákvæmlega sama fyrirkomulag og að byggja í Grafarholti eða í Bryggjuhverfinu,“ segir Þorvaldur og bætir við að einhvers konar afgreiðsla milli ríkis og borgar sé þeim óviðkomandi.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia sem sér um rekstur flugvalla landsins, segir í samtali við Vísi að fari kranar upp á þessu svæði muni það óneitanlega verða til þess að flugi verði beint á aðrar brautir - í þeim tilvikum þar sem það er mögulegt.

„Þessi braut er náttúrulega bara notuð í ákveðinni vindátt, þegar það er of mikill hliðarvindur á hinar brautirnar. Ef ekki verður hægt að nýta brautina þá gætu flugvélar einfaldlega ekkert lent á vellinum í ákveðnum veðrum,“ segir Guðni. Þessu muni því fylgja þjónustuskerðing fyrir flugið í landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×