Körfubolti

Haukur Helgi fjórða besta þriggja stiga skyttan á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi í baráttunni gegn Spánverjum á Eurobasket.
Haukur Helgi í baráttunni gegn Spánverjum á Eurobasket. Vísir/Valli
Haukur Helgi Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsins í körfubolta, var í hópi bestu skyttnanna á Eurobasket í ár. Haukar var nefnilega meðal efstu manna í þriggja stiga skotnýtingu á Evrópumótinu sem lauk um helgina.

Haukur endaði í fjórða sætinu í þriggja stiga skotnýtingu á fyrsta stórmóti íslenska körfuboltalandsliðsins en hann hitti úr 56 prósent þriggja stiga skota sinna eða 14 af 25.

Haukur Helgi skoraði 2,8 þrista að meðaltali í leik og náði samt að vera með þessa frábæru nýtingu. Það voru bara tveir leikmenn sem skoruðu fleiri þrista að meðaltali en hann eða Ítalinn Marco Belinelli (3,4 í leik) og Rússinn Vitaly Fridzon (3,0 í leik).

Rússinn Vitaly Fridzon var síðan með bestu þriggja stiga nýtinguna á mótinu en hann setti niður 65 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna. Grikkinn Nick Calathes (61 prósent) og Hollendingurinn Charlon Kloof (61 prósent) voru líka með betri þriggja stiga skotnýtingu en okkar maður.

Haukur Helgi var ekki eini Íslendingurinn á listanum því Logi Gunnarsson náði fimmtánda sætinu með því að hitta úr 47,4 prósent af þriggja stiga skotum sínum en 9 af 19 skotum hans fyrir utan þriggja stiga línuna rötuðu rétta leið.

Jón Arnór Stefánsson og Hlynur Bæringsson komust einnig inn á topp tíu í tveimur af stærstu tölfræðiþáttunum á Evrópumótinu.

Jón Arnór endaði í sjöunda sæti í stoðsendingum með 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik og Hlynur í tíunda sæti í fráköstum með 7,0 að meðaltali í leik.

Hlynur varð einnig í 10. sæti í sóknarfráköstum (2,6 í leik) og í 11. sæti í stolnum boltum (1,2 í leik).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×