Innlent

Urgur meðal bænda: „Svekktur yfir því hvernig stjórnvöld hafa komið fram“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands.
Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands.
Urgur er meðal bænda vegna samnings stjórnvalda og ESB um niðurfellingu tolla. Formaður Svínaræktarfélags Íslands er svekktur út í stjórnvöld og segist síst hafa átt von á að Framsóknarflokkurinn myndi standa að slíkum samningi.

Í síðustu viku náðust nýjir samningnar á milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Vonast er til að þeir geti tekið gildi í árslok 2016. Þeir fela í sér að allir tollar á unnar landbúnaðarvörur veða felldir niður nema á jógúrt. Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir bændur hafa töluverðar áhyggjur af áhrifum samninganna á íslenska bændur.

„Afnám tolla það kemur til með að hafa gríðarleg áhrif á okkar starfsumhverfi og ef að stjórnvöld láta þar við sitja, það er að segja koma ekki með neinar mótvægisaðgerðir, þá er mjög líklegt að fjölskyldubúin að minnsta kosti að þau leggji upp laupana,“ segir Hörður Harðarson.

Hörður segir að urgur sé meðal bænda vegna málsins. Bændasamtökin hafa óskað eftir fundi með landbúnaðarráðherra á morgun til að kerfja hann svara.

„Ég er bara mjög svekktur yfir því hvernig stjórnvöld hafa komið fram í þessu máli og ég verð að segja það alveg eins og er að ég hefði kannski síst átt von á því að Framsóknarflokkurinn, sem alltaf hefur kennt sig við landbúnað og viljað vernda eða styrkja íslenska búvöruframleiðslu, að hann skuli grípa til þessara ráðstafana,“ segir Hörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×