Enski boltinn

De Bruyne fjórfaldaði laun sín er hann gekk til liðs við Manchester City

Kristinn Páll Teitsson skrifar
De Bruyne fagnar hér marki sínu gegn Tottenham um helgina.
De Bruyne fagnar hér marki sínu gegn Tottenham um helgina. Vísir/Getty
Yfirmaður íþróttamála hjá Wolfsburg, Klaus Allofs, segir félagið hafi neyðst til að selja Kevin De Bruyne til Manchester City í sumar eftir að enska félagið bauð honum fjórfalt hærri laun en hann var með hjá þýska félaginu.

De Bruyne sem gekk til liðs við Manchester City fyrir 54 milljónir punda í sumar varð dýrasti leikmaðurinn í sögu þýsku deildarinnar eftir að hafa verið einn besti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili.

Lengi vel benti allt til þess að Wolfsburg myndi ekki samþykkja tilboð enska félagsins en félögin komust loksins að samkomulagi stuttu fyrir lok félagsskiptagluggans. De Bruyne hefur farið vel af stað með nýja félagi sínu en hann hefur skorað þrjú mörk í þeim þremur leikjum sem hann hefur byrjað inná.

„Við reyndum að finna lausn sem þýddi að Kevin yrði áfram hjá okkur en við komumst að því að þetta yrði besta lausnin. Þegar leikmaður fær tilboð sem hljómar upp á fjórföldun á launum þarf að íhuga hvaða áhrif þetta hefur á hann“ sagði Allofs sem sagði að Wolfsburg gæti ekki haldið stjörnum ef stórlið færu að spyrjast út í leikmenn þeirra.

„Þetta var tækifæri sem hann fær kannski einu sinni á ferlinum, við getum ekki keppt við félög eins og Manchester City, Paris Saint-Germain, Bayern Munchen og Barcelona þegar kemur að þessu. Það er í raun aldrei hægt að segja að leikmaður sé einfaldlega ekki til sölu þegar þessi félög eru til staðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×