Innlent

Lárentsínus Kristjánsson skipaður héraðsdómari

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lárentsínus Kristjánsson.
Lárentsínus Kristjánsson. vísir/gva
Lárentsínus Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, hefur verið skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, skipar í embættið frá og með 14. september.

Dómnefnd mat þrjá umsækjendur hæfasta, þá Lárentsínus, Arnar Þór Jónsson, lektor við Háskólann í Reykjavík og Pétur Dam Leifsson, dósent við Háskóla Íslands.

Lárentsínus lauk prófi frá lagadeild HÍ árið 1990. Þá öðlaðist hann málflutningsréttindi í héraði árið 1993 og fyrir Hæstarétti árið 2004. Árið 1994 varð Lárentsínus meðeigandi hjá Lögfræðistofu Suðurnesja og starfaði þar allt til ársins 2006. Þá varð hann meðeigandi að Lögfræðistofu Reykjavíkur og var það til vorsins 2013.

Frá október 2008 til júní 2009 starfaði hann hjá skilanefnd Landsbanka Íslands en sinnti hefðbundnum lögmannsstörfum meðfram því starfi. Í júní 2009 var hann skipaður formaður skilanefndar bankans og gegndi því starfi til ársloka 2011. Frá árinu 2013 hefur Lárentínus svo rekið eigin lögmannsstofu, Lögmenn Strandgötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×