Körfubolti

Evrópumeistararnir auðveldlega í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tony Parker fagnar góðri körfu í kvöld.
Tony Parker fagnar góðri körfu í kvöld. vísir/getty
Evrópumeistarar Frakklands komust í undanúrslit á EM í körfubolta, en útsláttarkeppnin stendur nú yfir í Lille í Frakklandi.

Frakkland vann Lettland með 14 stiga mun, 84-70, í átta liða úrslitum í kvöld og fylgir því Spánverjum í undanúrslitin.

Tony Parker var aðalmaðurinn hjá Frökkum eins og svo oft áður, en hann skoraði 18 stig og gaf sex stoðsendingar á þeim 30 mínútum sem hann spilaði.

Félagi hans hjá San Antonio Spurs, Boris Diaw, var næst stigahæstur með 14 stig auk þess sem hann tók þrjú fráköst.

Kristaps Janicenoks var stigahæstur hjá Lettunum með 16 stig, en Janis Strelnieks skoraði 14 stig og tók sjö fráköst.

Það verður því boðið upp á sannkallaðan risaslag í fyrri undanúrslitaleiknum 17. september þegar Evrópumeistarar Frakklands mæta Spánverjum.

Hinir leikirnir í átta liða úrslitum verða spilaðir á morgun, en þar eigast við Serbar og Tékkar annars vegar og Ítalía og Litháen hinsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×