Körfubolti

Serbar í undanúrslit eftir 14 stiga sigur á Tékkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Teodosic og félagar eru komnir í undanúrslitin en margir spá þeim sigri á EM.
Teodosic og félagar eru komnir í undanúrslitin en margir spá þeim sigri á EM. vísir/getty
Milos Teodosic átti enn einn stórleikinn þegar Serbía tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í körfubolta, EuroBasket, með sigri á Tékklandi í dag. Lokatölur 89-75, Serbum í vil.

Þessi 28 ára gamli leikstjórnandi CSKA Moskva hefur spilað stórvel á EM en hann var með 12 stig og 14 stoðsendingar í dag.

Zoran Erceg var stigahæstur í liði Serba með 20 stig en Miroslav Raduljica kom næstur með 16 stig. Nemanja Bjelica átti einnig flottan leik með 14 stig og 10 fráköst.

Tékkar voru með yfirhöndina framan af leik og náðu mest átta stiga forskoti, 6-14. Serbar unnu sig inn í leikinn og að loknum 1. leikhluta var staðan jöfn, 21-21.

Serbarnir voru með yfirhöndina í 2. leikhluta en Tékkarnir voru aldrei langt undan. Það munaði aðeins þremur stigum, 45-42, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Serbía var áfram með yfirhöndina í 3. leikhluta og Stefan Markovic kom liðinu tíu stigum yfir, 65-55, þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Tékkland endaði 3. leikhlutann hins vegar á 8-2 spretti og því munaði einungis fjórum stigum, 67-63, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Lokaleikhlutinn var eign Serba en Tékkarnir skoruðu aðeins fjórar körfur í öllum leikhlutanum. Serbía sýndi mátt sinn og megin og vann að lokum 14 stiga sigur, 89-75.

Jan Vesely skoraði 23 stig fyrir Tékkland og tók 10 fráköst. Tomás Satoransky kom næstur með 20 stig en Tékka vantaði betra framlag frá bekknum en varamenn þeirra skoruðu aðeins 14 stig gegn 50 stigum varamanna Serba.

Serbía mætir annað hvort Ítalíu eða Litháen í undanúrslitunum en liðin mætast í fjórða og síðasta leiknum í 8-liða úrslitum síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×