Innlent

Styðja samnemanda og hlaupa fyrir MS-félagið

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kári Steinn Karlsson kemur í mark í síðasta Flensborgarhlaupinu.
Kári Steinn Karlsson kemur í mark í síðasta Flensborgarhlaupinu. Vísir/Flensborg
Flensborgarhlaupið fer fram þann 22. september næstkomandi. Hlaupið er nú fimm ára og er orðinn fastur liður í hlaupadagskránni. Í þetta sinn rennur allur ágóði til MS-félagsins og ungs fólks sem greinst hefur með MS-sjúkdóminn. Fram kemur í tilkynningu að sá sjúkdómur hefur oftar en einu sinni látið á sér kræla í litla skólasamfélagi Flensborgar. Inga María Björgvinsdóttir, 18 ára nemandi, greindist nýlega. Framganga hennar í Reykjavíkurmaraþoninu varð hvatning þeirra til að styrkja þetta málefni.

Hlaupið er haldið í samstarfi við Hlaupahóp FH og Skokkhóp Hauka. Markmiðið er að búa til skemmtilegan viðburð fyrir bæjarbúa og hugsað sem hvatning til útiveru og hreyfingar. Einnig er keppt um titilinn Framhaldsskólameistarinn í 10 km hlaupi. Fljótasti karlinn og konan úr framhaldsskóla hlýtur titilinn Framhaldsskólameistarinn.



Þjálfarar sjá um upphitun fyrir hlaup svo gott er að mæta tímanlega. Það verður líka líf og fjör í Hamarssal að hlaupi loknu, enda vegleg útdráttarverðlaun í pottinum. Hafnarfjarðarbær býður svo keppendum í sund gegn framvísun hlaupanúmers.

Hlaupið fer fram þriðjudaginn 22. september og byrjar kl 17.30. Skráning fer fram á flensborgarhlaup.is og verður hægt að skrá sig til kl. 12:00 á hlaupadegi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×