Körfubolti

Haukur Helgi: Maður veit aldrei hver er í stúkunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur Helgi hefur spilað afar vel í mótinu til þessa.
Haukur Helgi hefur spilað afar vel í mótinu til þessa. vísir/valli
Haukur Helgi Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsins í körfubolta, segir að leikurinn gegn Ítalíu hafi getað dottið báðu megin. Hann var skiljanlega svekktur í leikslok.

„Þetta hefði getað dottið báðu megin. Mér fannst það það vera nokkuð "play" varnarmegin sem voru vafasöm. Einhver skot hefðu getað dottið niður, eitt til tvö, og þetta hefði orðið okkur leikur," sagði Haukur Helgi við Vísi í leikslok.

„Það er rosalega stórt, en svona er þetta. Hann er það rosalega góður leikmaður að hann er ekkert að fara klikka á þessum vítum. Það má segja að þetta hafi verið nokkur "play" hér og þar."

„Ég sagði að við myndum verða úthvíldir og núna fáum við einn dag í viðbót. Adrenalínið er bara í gangi og strax þegar áhorfendurnir eru byrjaðir að hvetja mann í upphitun. Það er ekki hægt að lýsa því hvað gerist. Þetta er ekki orka - þetta er eitthvað allt annað."

Haukur segir að stuðningurinn við liðið sé algjörlega magnaður og stuðningsmenn annara liða hafi stoppað hann á förnum vegi.

„Það var verið að stoppa mig núna og það var sagt við mig að við værum með "the most impressive fans at Eurobasket"."

Hann ákvað að semja ekki við neitt lið fyrir mótið og nýtið mótið sem glugga. Hann hefur spilað afar vel í fyrstu leikjunum og er hann ánægður með sína spilamennsku.

„Ég er að finna þjölina og það er bara skemmtilegt í svona leikjum. Vonandi kemur eitthvað mjög gott úr þessu, það er aldrei að vita. Maður veit aldrei hver er í stúkunni og ég er ekkert að pæla í því. Maður reynir bara að spila og vinna þessa leiki."

„Það er ekki langt síðan að við vorum sáttir að tapa með sem minnstum mun, en við erum það góðir núna. Það er ástæðan fyrir því að við erum á þessu móti. Við erum búnir að sýna það núna tvo leiki í röð og báðir þessir leikir hefðu getað dottið okkar megin. Við eigum leik inni til að vinna. Það er bara þannig."

„Það eru allir mjög góðir vinir hérna. Þótt að landsliðið sé ekki í gangi þá tölum við saman og það er bara frábært. Það er ástæðan fyrir því að við stöndum okkur svona vel. Þegar einhver er niðri þá eru ellefu aðrir til í að bakka hann upp," sagði Haukur Helgi í samtali við Vísi í leikslok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×