Körfubolti

Hörður Axel: Erum að vinna okkur inn virðingu frá öllum hérna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Visir/Valli
Hörður Axel Vilhjálmsson var allt annað en sáttur með frammistöðu dómaranna eftir tapið á móti Ítölum í kvöld og það er vel hægt að taka undir þá skoðun hans að dómararnir hafi verið með NBA-stjörnur í augum.

„Við erum bara drullufúlir að hafa ekki unnið þennan leik. Mér fannst halla rosalega á okkur. Þegar við keyrum að körfunni þá aldrei dæmt neitt og svo voru þeir að taka stökkskot út um allt og fá villur og víti fyrir það. Dómararnir voru bara með stjörnur í augum að horfa á einhverja NBA-karla spila við okkur og kannski höfðu þeir bara ekki trú á því að við gætum staðið eitthvað í þeim," sagði Hörður Axel.

„Það er náttúrulega alltaf hægt að benda á eitthvað og svo er þetta bara strax eftir leik og ég er mjög pirraður. Mér fannst þetta samt," sagði Hörður Axel en það er hugur í honum og öðrum í íslenska liðinu.

„Við erum komnir hingað til að vinna leik og við ætlum okkur að gera það. Það gerðist ekki í dag en við höfum fulla trú á því að við getum unnið leik hérna," sagði Hörður Axel. Íslenska vörnin var ekki nógu góð í byrjun en svo komu strákarnir sér aftur í rétta varnargírinn.

„Við erum hörku spilarar og vitum alveg hvað við erum að gera. Þetta er ekki fyrsti leikurinn sem við spilum. Við aðlögum okkur að leik mótherjanna og það er meira um að liðin þurfi að aðlaga sig að okkur útaf því hvernig við spilum. Nú er bara áfram gakk og sjáum til hvað gerist," sagði Hörður Axel.

„Ítalarnir bjuggumst kannski ekki við hörkuleik en ég held að við séum að vinna okkur inn virðingu frá öllum hérna," sagði Hörður. Næsti leikur er ekki fyrr en á móti Serbíu á þriðjudaginn.

„Frídagurinn á morgun er kærkominn og gott að fá einn dag til að hlaða batteríin og hreinsa hugann eftir erfitt tap," sagði Hörður Axel en stuðningurinn frá stúkunni var frábær í kvöld.

„Það er frábært að sjá okkar fólk í stúkunni. Ég var seinastur út á gólfi til þess að reyna að taka þetta allt inn. Það er ekki á hverjum degi sem að maður upplifir svona stemningu. Þetta er alveg geggjað," sagði Hörður Axel.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×