Innlent

Ný Íbúðastofnun tekur við verkefnum Íbúðalánasjóðs

Eygló Harðardóttir mun leggja fram frumvarp í haust um að sérstök Íbúðastofnun taki að sér verkefni Íbúðalánasjóðs.
Eygló Harðardóttir mun leggja fram frumvarp í haust um að sérstök Íbúðastofnun taki að sér verkefni Íbúðalánasjóðs. Vísir/Ernir Eyjólfsson
Sérstök Íbúðastofnun verður stofnuð sem á að taka við við hluta þeirra verkefna sem Íbúðalána­sjóður hefur sinnt, m.a. veitingu stofnframlaga til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum sem ætlaðar eru hópi leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir veturinn. Frumvarpið um Íbúðastofnun verður lagt fram af Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra í haust.

Auk verkefna sem Íbúðalánasjóður hefur sinnt mun stofnunin vera stjórnvöldum til ráðgjafar um mótun húsnæðisstefnu, annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upp­lýsinga á sviði húsnæðismála og meta þörf á búsetuúrræðum. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hús­næðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl.

Í maí greindi Vísir frá því að eðli Íbúðalánasjóðs myndi breytast og lánasafn sjóðsins yrði látið renna út. Það væri stefna ríkisstjórnarinnar að sjóðurinn veitti engin ný lán og sinnti aðeins núverandi viðskiptavinum þar til líftíma eigna og skulda er lokið

Ekki náðist í Hermann Jónasson, forstjóra Íbúðalánasjóðs né Eygló Harðardóttur við gerð þessarar fréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×