Innlent

Strætóbílstjóri sakaður um að neita að hleypa fjögurra manna fjölskyldu úr vagninum

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjölskyldan beið í biðskýli við Vonarstræti þegar bílstjórinn ók fram hjá þeim.
Fjölskyldan beið í biðskýli við Vonarstræti þegar bílstjórinn ók fram hjá þeim. Vísir/Ernir
Strætó bs. er með til skoðunar atvik sem átti sér stað í Reykjavík síðastliðinn föstudag. Er strætóbílstjóri sakaður um að hafa neitað að hleypa ungri fjögurra manna fjölskyldu út úr strætisvagninum.

„Þetta er ekki eitthvað sem við tökum léttvægt á,“ segir Ástríður Þórðardóttir, fjármálastjóri Strætó bs., í samtali við Vísi um málið. Hún segir Strætó bs. vera búið að ræða við fjölskylduna og að vitað sé hver umræddur bílstjóri er og að hann verði boðaður á fund vegna málsins.

Samkvæmt heimildum Vísis á atvikið að hafa gengið þannig fyrir sig að þessi fjögurra manna fjölskylda stóð í biðskýli við Ráðhús Reykjavíkur í Vonarstræti þegar strætisvagn sem hún hafði beðið eftir ók fram hjá henni.

Fjölskyldan hljóp á eftir vagninum og gaf bílstjóranum merki um að stöðva sem hann gerði og hleypti henni inn. Þegar þangað var komið taldi strætóbílstjórinn sig ekki hafa fengið nægjanlega sönnun fyrir því að miðakaup hefðu átt sér stað í gegnum strætó-appið. Þegar sá misskilningur hafði verið leiðréttur upphófust orðaskipti á milli foreldranna og strætóbílstjórans þar sem skipst var á ásökunum um dónaskap.

Þegar komið var á Hofsvallagötu gáfu foreldrarnir bílstjóranum merki um að fjölskyldan ætlaði úr vagninum. Bílstjórinn er sagður hafa stoppað á réttum stað en neitað að opna fyrir fjölskyldunni og hleypa henni út. Þegar fjölskyldufaðirinn bað bílstjórann um að hleypa þeim út á bílstjórinn að hafa tjáð þeim að þau færu ekki fet fyrr en hann hefði rætt við þjónustuver Strætó bs. um hegðun foreldranna.

Er einn farþeganna, ótengdur fjölskyldunni, sagður hafa á þeim tímapunkti heimtað að bílstjórinn hleypti honum út. Á fjölskyldan að hafa nýtt sér tækifærið og komið sér úr vagninum þegar bílstjórinn opnaði fyrir farþeganum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×