Innlent

Lagarfoss væntanlegt á fimmtudagsmorgun

Bjarki Ármannsson skrifar
Skipið sem um ræðir.
Skipið sem um ræðir. Vísir/Daníel
Bilun varð í stýrisvél flutningaskipsins Lagarfoss síðdegis í dag. Skipið er statt um sjötíu sjómílum suðaustan af suðurströnd Íslands og er varðskipið Þór á leið til móts við það nú.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Eimskip er áætlað að dráttartaug verði komin á milli skipana um klukkan fimm í fyrramálið. Ráðgert er að Lagarfoss verði komið til Reykjavíkur að morgni fimmtudags.

„Eimskip þakkar Landhelgisgæslunni fyrir skjót viðbrögð og biður viðskiptamenn félagsins velvirðingar á ófyrirséðum töfum skipsins hingað til lands,“ segir í tilkynningunni. „Lagarfoss er nýkomið úr ábyrgðarskoðun þar sem framleiðendur stýrisvélar skipsins ákváðu að eigin frumkvæði að framkvæma breytingar á stýrisbúnaði þess.  Líkur eru á að mistök hafi orðið við framkvæmd viðgerðarinnar sem alfarið er á ábyrgð framleiðandans.“

Veðurskilyrði eru sögð hagstæð þar sem skipið situr fast og engin hætta er talin vera á ferðum fyrir skipið eða áhöfn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×